Í dag fer af stað ný herferð Sjúk ást á vegum Stígamóta sem fagnar því að ár er síðan úrræðið Sjúkt spjall var opnað. Sjúkt spjall er nafnlaust netspjall fyrir ungmenni um sambönd, samskipti og ofbeldi þar sem þau geta rætt við fagaðila um reynslu sína í trúnaði.
Í tilkynningu frá Stígamótum kemur fram að síðan spjallið opnaði hafa átt sér stað samtöl við tæplega 250 ungmenni en stærsti hópurinn sem hefur leitað aðstoðar eru unglingsstúlkur með reynslu af ofbeldissambandi. Rúmlega helmingur þeirra sem höfðu samband, þetta fyrsta starfsár spjallsins, vantaði ráðgjöf vegna ofbeldis – flest sem þolendur, en einnig sem gerendur og aðstandendur. Mörg lýstu grófu andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi. Fæst þessara ungmenna höfðu rætt upplifun sína við nokkurn fullorðinn áður en þau leituðu á Sjúkt spjall eftir ráðgjöf og fræðslu.
Stígamót segjast í samtölunum sjá nokkur algeng þemu og spurningar sem unglingarnir þurfa svör við. Í herferð ársins eru fengnar að láni tilvitnanir úr spjallinu til að sýna öðrum unglingum að þau eru ekki ein og gera sýnilegan reynsluheim jafningja þeirra úr skóla og félagslífi. Herferð ársins leitast einnig við að færa unglingunum svör við þessum algengu vangaveltum.
Hér eru algengustu þemun og undir hverju þema er eitt dæmi af mörgum af Sjúku spjalli:
Auk þess koma inn ýmsar spurningar um sambönd, ástarsorg og kynlíf og var eitt plakat herferðarinnar og myndband helgað því, til að leggja áherslu á að allar spurningar eru velkomnar.
Það er augljóst af samtölum við öll þessi ungmenni að mörg eru að upplifa alvarlegt ofbeldi en eiga erfitt með að skilgreina reynslu sína. Jafnframt hafa þau takmarkaða þekkingu á því hvað er eðlilegt í samböndum og hvað sé eðlileg líðan í kjölfar ofbeldis. Þá er rauður þráður í gegnum samtölin hvað unglingarnir eru einangraðir með þessa reynslu sína og finnst erfitt að leita aðstoðar í nærumhverfi sínu. Sjúkt spjall verður því fyrsta skrefið í að rjúfa þessa einangrun fyrir mörg sem hafa samband.
Með herferðinni í ár fylgja veggspjöld og myndbönd um þessi meginþemu þar sem er að finna tilvitnanir úr spjallinu. Plakötunum hefur verið dreift í allar félagsmiðstöðvar og framhaldsskóla á Íslandi. Jafnframt bjóða félagsmiðstöðvar upp á Sjúk ást fræðslu í samvinnu við Stígamót en undanfarin ár hafa þúsundir unglinga notið góðs af slíkri fræðslu.
Hvað er Sjúk ást?
Sjúk ást er fræðslu- og forvarnaverkefni gegn kynferðisofbeldi á vegum Stígamóta. Markmið verkefnisins er að fræða ungmenni um mörk, samþykki og heilbrigð sambönd með það að leiðarljósi að koma í veg fyrir kynferðisofbeldi áður en það er framið.
Hvað er Sjúkt spjall?
Sjúkt spjall er nafnlaust netspjall fyrir ungmenni 20 ára og yngri þar sem þau geta leitað ráðgjafar fagaðila um sambönd, samskipti og ofbeldi. Spjallið opnaði í mars 2022 og fagnar því eins árs afmæli um þessar mundir. Spjallið er opið þrjú kvöld í viku frá kl. 20-22 og má finna á síðunni www.sjukast.is.
Sjúk ást ráðstefnan 2023
Ráðstefnan Sjúk ást verður haldin föstudaginn 10. Mars kl. 10-15 á Reykjavík Natura Hótel, Nauthólsvegi 52, 101 RVK og í streymi. Þemað er Kynbundið ofbeldi og ábyrgð skólans. Ráðstefna um forvarnir, fræðslu og viðbrögð við kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi í skólum. Dagskrá má finna hér.
Í rúm fimm ár hafa Stígamót staðið fyrir umfangsmikilli fræðslu til unglinga í gegnum Sjúk ást verkefnið. Þegar má sjá árangur af því og að mörg ungmenni eru orðin miklu meðvitaðri um kynferðisofbeldi og afleiðingar þess en áður. Í kjölfar #metoo byltinga síðustu ára hefur nú komið fram ákall frá framhaldsskólanemum um að kynferðisofbeldi sé tekið alvarlega af skólayfirvöldum og að skapaðar verði ásættanlegar aðstæður til náms í framhaldsskólum fyrir þolendur kynferðisbrota. Síðastliðið haust urðu mikil mótmæli eftir röð atvika í framhaldsskólum sem einkenndust að miklu leyti af ráðaleysi skólastjórnenda í að taka á ofbeldismálum innan skóla. Í framhaldinu varð ljóst að marga skóla skortir áætlanir, þekkingu og verkferla í að takast á við ofbeldi á áfallamiðaðan og brotaþolavænan hátt.
Með allt þetta í huga hafa Stígamót nú boðað til ráðstefnu undir yfirskriftinni Kynbundið ofbeldi og ábyrgð skólans. Rúmlega 400 þátttakendur úr skólasamfélaginu hafa skráð sig til þátttöku á ráðstefnunni sem fram fer á morgun, föstudag, kl. 10-15. Á ráðstefnuna var sérstaklega boðið nýstofnuðum forvarnateymum grunnskólanna og tengiliðum við verkefnið Heilsueflandi framhaldsskóla á framhaldsskólastiginu. Þessir hópar hafa fengið sérstöku hlutverki úthlutað í aðgerðaáætlun stjórnvalda um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni og eiga að stuðla að forvörnum í sínum skólum. Þessi teymi samanstanda gjarnan af kennurum, skólastjórnendum, skólahjúkrunarfræðingum, námsráðgjöfum og frístundastarfsfólki svo eitthvað sé nefnt.
Á ráðstefnunni gefst fólki úr skólasamfélaginu tækifæri til að dýpka þekkingu sína á eðli og afleiðingum kynferðislegs og kynbundins ofbeldis. Þá verður fjallað um hvernig best sé að standa að fræðslu til nemenda þannig að tekið sé tillit til allra þeirra sjónarmiða sem skipta máli í umfjöllun um þennan viðkvæma málaflokk. Að endingu verður svo fjallað sérstaklega um hlutverk skólans, hvað forvarna- og viðbragðsáætlanir þurfa að hafa til að bera og hvað skólastjórnendur þurfa að hafa í huga í viðbrögðum við kynbundnu ofbeldi meðal nemenda skólans. Áhersla verður lögð á umræður og praktíska nálgun.
Ráðstefnan er haldin í samstarfi við forsætisráðuneytið, mennta- og barnamálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og Kennarasamband Íslands. Dagskrá má finna hér.