Edda Falak, fjölmiðlamaður á Heimildinni, er krafin um 5 milljónir í skaðabætur af móður konu sem var gestur í Eigin konum, hlaðvarpi Eddu. Konan höfðaði mál gegn Eddu vegna birtingar á hljóðbroti þar sem heyra má samtal hennar og dóttur hennar. Telur konan birtingu hljóðbrotsins brjóta gegn friðhelgi einkalífs síns. Konan krefst þess ekki að brotið verði tekið út úr þættinum eða af samfélagsmiðlum þáttanna heldur aðeins bóta vegna birtingar þess.
Auður Björg Jónsdóttir lögmaður konunnar staðfestir þetta í samtali við mbl.is. Héraðsdómur Reykjavíkur tók málið til meðferðar í gær og var þinghald lokað.
Í umræddum þætti greindi viðmælandi Eddu frá því að hún hefði verið beitt andlegu ofbeldi af móður sinni. Hljóðupptökur af samtölum mæðgnanna voru spilaðar, þar sem móðirin sagði meðal annars að það væri „betra fyrir alla ef þú myndir bara deyja“.