Lögreglan á Tenerife hefur handtekið tvo starfsmenn sem vinna við töskuburð á flugvellinum á Tenerife, fyrir að stela úr töskum farþega. Fréttablaðið greinir frá þessu og hefur eftir miðlinum Canarian Weekly.
Starfsmenn öryggisteymis flugvallarins komu starfsmönnunum, og þjófunum meintu, að óvörum þegar öryggisstarfsmennirnir sinntu hefðbundnum öryggisstörfum. Málið er í rannsókn lögreglu.
Fjölmargir Íslendingar hafa orðið fyrir barðinu á stuldi úr töskum ferðatöskum sínum á Tenerife undanfarin misseri. Ekki er vitað til þess að áður hafi starfsmenn þar verið að verki. Í viðtali við Morgunblaðið síðastliðið haust hvatti Sigvaldi Kaldalóns, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Tenerife ferðir, ferðamenn til að geyma ekki verðmæti í ferðatöskum sínum.
Á Tenerife á stuldur úr ferðatöskum sér aðallega stað á sjálfu farangursrými flugvallarins þar sem engar myndavélar eru, segir Fréttablaðið.