Í skýrslunni kemur fram að helsta leiðin til þess sé ungmennaherinn Yunarmiya en í honum eru börn allt niður í 8 ára aldur þjálfuð til að verða hluti af rússneska hernum.
Þessi ungmennaher hefur stækkað mikið á síðustu árum. Hann var stofnaður 2016 og voru þá tæplega 100.000 börn í honum en í dag eru þau rúmlega ein milljón.
Börnin læra margvíslega hernaðartækni og að nota sjálfvirkar vélbyssur.
Ekki er talið að Pútín hyggist senda börn á vígvöllinn í Úkraínu en hins vegar sé ungmennaherinn hugsaður sem einhverskonar trygging fyrir því að hermenn verði til reiðu í framtíðinni.
Einnig gengur þetta út á að fylla börnin ættjarðarást og trú og trygg Rússlandi og Pútín. Með því er dregið úr líkunum á að þau geri uppreisn gegn Pútín og stjórn hans.
Sænska ríkissjónvarpið segir að þegar börn séu tekin inn í ungmennaherinn verði þau að sverja eið sem hljóðar eitthvað á þessa leið: „Með því að ganga í ungmennaherinn, mun ég sanna ást mína til föðurlandsins og vilja minn til að verja það.“
Ekki hefur dregið úr tilraunum yfirvalda að gera æsku landsins bardagafæra og þjóðernissinnaða eftir innrásina í Úkraínu. Frá því í september á síðasta ári hefur sú skylda hvílt á öllum skólum landsins að draga þjóðfánann að húni á hverjum mánudegi og eiga nemendurnir að syngja þjóðsönginn.