Íslensk kona var í lok janúar dæmd í þriggja og hálfs árs fangelsi í héraðsdómi í Helsinki í Finnlandi. RÚV greinir frá þessu.
Konan er á fertugsaldri. Afbrot hennar var umfangsmikil sala á lyfinu OxyContin, sem er í grunninn sterkt verkjalyf úr flokki ópíóða en er oft misnotað sem vímuefni. Íslenska konan er talin vera ein af fimmtán manna gengi sem seldi efnið á götum borgarinnar. Höfuðpaurinn í málinu var dæmdur í fimm ára fangelsi.
RÚV greinir frá því að rannsókn lögreglu hafi leitt í ljós að efninu var smyglað frá Eistlandi til Finnlands. Í umfjöllun ríkisfjölmiðils Finnlands um málið segir að margir af þeim sem höfðu ánetjast OxyContin hefðu misst vinnuna, glatað sparifé sínu eða neyðst til að selja eignir sínar til að fjármagna neysluna.
RÚV ræddi við Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins, og staðfesti hann að borgaraþjónustu ráðuneytisins hefði borist beiðni um aðstoð vegna málsins. Sú beiðni hafi verið send áfram til sendiráðs Íslands í Helsinki. Ekki er útilokað að konan fái að afplána dóm sinn á Íslandi.