Icelandair hefur opnað fyrir innritun farangurs á Keflavíkurflugvelli kvöldið fyrir flug. Þjónustan er í boði á milli klukkan 19-22, kvöldið fyrir bókað flug. Farþegar geta svo við komuna á flugvöllinn daginn eftir farið beint í öryggisleit og þannig einfaldað ferðalagið um flugvöllinn. Farþegar þurfa að innrita farangur sinn í eigin persónu og hafa með sér vegabréf, eins og segir í tilkynningu frá félaginu.
Að auki hefur Icelandair hafið samstarf við Öryggismiðstöðina sem býður upp á þá þjónustu að sækja farangur heim til farþega og sjá um innritun á honum. Þjónustan er í boði fyrir farþega á höfuðborgarsvæðinu sem hafa innritað sig rafrænt. Farþegar bóka þjónustu Öryggismiðstöðvarinnar í gegnum vefinn bagdrop.is og þar er einnig að finna verðskrá.
„Við erum alltaf að leita leiða til að auka þjónustuframboð okkar og við viljum leggja okkur fram um að draga úr áhrifum sem framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli hafa á farþega. Þess vegna er mjög spennandi að kynna þessar tvær leiðir fyrir farþega til þess að auðvelda ferðalagið og stytta tímann sem fer í innritun á flugvellinum. Við hlökkum til að sjá viðtökur farþega við þjónustunni,“ segir Sylvía Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri markaðsmála og þjónustu.
Isavia stendur nú í miklum framkvæmdum á farangursfæriböndum í brottfararsalnum á Keflavíkurflugvelli. Framkvæmdir munu standa fram í apríl og eru liður í endurbótum á farangursflokkunar- og innritunarkerfi. Vegna framkvæmdanna geta farþegar búist við lengri afgreiðslutíma við innritun farangurs og því gæti sú þjónusta að innrita farangurinn daginn fyrir flugið hentað sérlega vel þeim farþegum sem eru á hraðferð eða þeim sem ferðast með mikinn farangur.