Upp úr kl. 9 í morgun barst Lögreglunni á Vestfjörðum tilkynning um að eldur væri laus í húsnæði fiskeldisfyrirtækis í botni Tálknafjarðar. Samkvæmt heimildum DV er um að ræða seiðaeldisstöð Arctic Fish.
Í tilkynningu frá Lögreglunni á Vestfjörðum kemur fram að svæðið hafi verið rýmt af af lögreglu, slökkviliði og björgunarsveitum og þjóðvegurinn í botni fjarðarins lokaður til öryggis. Slökkvistarf stendur yfir. Í tilkynningunni er fólk beðið um að virða þessar lokanir enda gæti hætta skapast vegna eldsvoðans.
Samkvæmt Fréttablaðinu voru tveir fluttir á slysadeild vegna brunans en hann er í nýbyggingu fiskeldisverksmiðjunnar. „Það náðust allir út úr húsinu og tveir voru fluttir til aðhlynningar á sjúkrahúsi,“ segir Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjóri á Tálknafirði, í samtali við Fréttablaðið. Hann segir ennfremur:
„Ég er hér á vettvangi. Það er mikill eldur í nýbyggingu. Það hefur allt tiltækt lið verið virkjað og er slökkvilið að vinna að því að slökkva eldinn.“
Hann segir jafnframt að tekist hafi að ná öllum út úr byggingunni í tæka tíð en sem fyrr segir voru tveir flutti á sjúkrahús til aðhlynningar.