Heimildarmenn í Hvíta húsinu segja heimsóknina hafa verið einstaka og án fordæma því þrátt fyrir að heimsóknin hafi komið heimsbyggðinni á óvart þá er það ekki þannig að einn valdamesti maður heims komi algjörlega fyrirvaralaust í heimsókn til lands sem á í stríði. BBC skýrir frá þessu.
Þetta var fyrsta heimsókn Biden til Úkraínu síðan Rússar réðust inn í landið fyrir tæpu ári.
Eins og áður sagði kom heimsóknin nánast öllum á óvart. En þrátt fyrir það hafði hún verið í undirbúningi í marga mánuði en það var ekki fyrr en á föstudaginn sem ákveðið var að láta verða af henni að sögn BBC og CNN.
Heimsóknin fór fram í tengslum við heimsókn Biden til Póllands.
BBC segir að margir fréttamenn hafi verið búnir að velta því upp hvort Biden myndi fara til Úkraínu þegar hann væri á annað borð kominn til Póllands en enginn reiknaði með að heimsóknin myndi fara fram eins og hún gerði þar sem Biden sást skyndilega á gangi í Kyiv með Volodymyr Zelenskyy, forseta Úkraínu.