Dómur féll nú í morgun í máli Árvakurs, útgefanda Morgunblaðsins og mbl.is, og Atla Viðars Þorsteinssonar, gegn Reyni Traustasyni, eiganda og ritstjóra Mannlífs og útgáfufélagi hans Sólartún ehf. Var dæmt stefnendum í vil og þarf Reynir og útgáfufélag hans að greiða Árvakri og Atla Viðari bætur, auk þess að greiða málskostnað Árvakurs. Að auki þarf Mannlíf að birta dómsniðurstöðuna í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu.
Fullnaðarsigur. Fallist á kröfur mínar, Mannlíf og Reynir Traustason greiða mér bætur, og þurfa að birta dóminn í Fréttablaðinu og Mogganum.
AHAAAAAHAAHAHAHAAHA!! RRRRRÚSSTTTTT! https://t.co/AGqR5Wrxft pic.twitter.com/U25AvQp7pk— Atli Viðar (@atli_vidar) February 22, 2023
Árvakur, útgefandi Morgunblaðsins og mbl.is, stefndi Reyni Traustasyni, eiganda og ritstjóra Mannlífs og útgáfufélagi hans Sólartún ehf., fyrir fréttaskrif upp úr minningargreinum sem birtust í Morgunblaðinu. Árvakur krafðist þess að ritstjórinn og útgáfufélagið yrði dæmt til að greiða 1,5 milljónir þar sem Árvakur eigi útgáfu-og birtingarrétt minningargreinanna.
Atli Viðar Þorsteinsson, stefndi jafnframt Reyni og Sólartúni, en Atli Viðar skrifaði minningargrein um bróður sinn í Morgunblaðið. Mannlíf gerði sér mat úr minningargreininni, og skrifaði frétt og birti mynd af bróðurnum.
Atli Viðar steig meðal annars fram í ítarlegu helgarviðtali við DV þar sem hann ræddi meðal annars upplifun sína af fréttaskrifum Mannlífs.
„Það er gríðarlega þungu fargi af mér létt og okkur í fjölskyldunni, að hafa unnið fullnaðarsigur í þessu máli er ekkert annað heldur en stórkostlegt,“ sagði Atli í samtali við Fréttablaðið eftir að dómur var uppkvaðinn.
„Þetta geirneglir það að svona framkoma eins og hjá Mannlíf og Reyni Traustasyni er siðferðislega röng. Það vissu það allir en nú er það staðfest að þetta er einnig rangt í augum laganna.“
Atli sagði ennfremur að það mikilvægasta sé að niðurstaða héraðsdóms komi í veg fyrir að Mannlíf geti gert þetta aftur gegn öðrum. „Það er stóri sigurinn í þessu máli, að fólk fái að syrgja í friði. Það sem Reynir gerir þarna er að hafa sorg aðstandenda að féþúfu og heggur í fólk á sinni viðkvæmustu stund.“
Ítarlegra viðtal við Atla má lesa á vef Fréttablaðsins.
Atli Viðar krafði ritstjórann og útgáfufélagið um 1,5 milljón fyrir brot á höfundar-og sæmdarrétti.Í gær tvítaði Atli Viðar að dómsniðurstöðu væri að vænta í dag: „Á morgun klukkan 9.15 fellur dómur í málsókn minni gegn Reyni Traustasyni og Mannlífi fyrir að ritstela og afskræma minningargrein bróður míns. Hvernig sem dómur fellur verð ég svo ógeðslega fokking glaður yfir þetta krabbameins/uppsagnar/málsóknarhryllingstímabili sé lokið.“
Kjaftæðið sem ég þurfti að sitja undir frá lögfræðingi Mannlífs í 4 klst meðan hann reyndi að verja þetta gersamlega siðblinda athæfi var nóg til að æra óstöðuga. Hlusta á mann á launum réttlæta að hafa hinstu kveðjur syrgjenda að féþúfu er það bilaðasta sem ég hef upplifað.
— Atli Viðar (@atli_vidar) February 21, 2023
Og aftur má við þetta bæta að allt þetta mál skipti Reyni Traustason það litlu máli að hann gat ekki einu sinni sýnt þann manndóm að láta sjá sig í dómsalnum.
— Atli Viðar (@atli_vidar) February 21, 2023
Fréttaskrif Mannlífs upp úr minningargreinum Morgunblaðsins voru umdeild, sér í lagi þar sem flestar þeirra voru vegna einstaklinga sem voru alls ekki þjóðþekktir og voru þeir jafnframt myndbirtir á vef Mannlífs. Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður Reynis og Sólartúns ehf., sagði við RÚV í byrjun október: „Þetta snýst um rétt fjölmiðla til að vitna í aðra fjölmiðla. Þetta snýst um tilvitnunarrétt.“ Atli Viðar sagðist þá velta fyrir sér hvar ábyrgð ritstjóra Mannlífs liggi gagnvart syrgjendum.
Aðstandandi ótengdur málinu sem féll í dag kærði Reyni og Sólartún til siðanefndar Blaðamannafélagsins, sem þann 5. desember 2020 komst að þeirri niðurstöðu að skrif upp úr minningargreinum væru ekki brot á siðareglum. Sagði í úrskurði siðanefndar:
„Birting minningargreinar í dagblaði er opinber birting. Siðanefnd BÍ telur að endurbirting eða útdráttur úr minningargrein í öðrum miðli fari ekki í bága við siðareglur BÍ enda sé þar ekki vikið frá upprunalegum texta eða efnið brenglað.“
Eftir það hóf Morgunblaðið að setja fyrirvara á minningargreinar sem birtust í blaðinu um að endurbirting minningargreina í öðrum miðlum væri óleyfileg nema með samþykki höfunda og Morgunblaðsins.