Fréttablaðið skýrir frá þessu og segir að Jón Björn og fjölskylda hans hafi átt óskráðar fasteignir í sveitarfélaginu og hafi ekki greitt fasteignagjöld af þeim.
Í síðustu vik fengu bæjarfulltrúar erindi varðandi sumarbústaðalóðirnar Fönn 1 til 4 í Fannardal sem er innarlega í Norðfirði. Þessar lóðir eru í eigu Jóns Björns og fjölskyldu hans. Engin gjöld hafa verið greidd af húsunum, sem eru á lóðunum, en hins vegar hafa gjöld verið greidd af lóðunum.
Fréttablaðið hefur eftir Snorra Snorrasyni, fjármálastjóra Fjarðarbyggðar, að engir sumarbústaðir séu skráðir í fasteignamat, aðeins lóðirnar.
Hann sagði þetta vera fimm til tíu ára sögu. Sótt hafi verið um byggingarleyfi en því hafi verið hafnað. Málið hafi verið í deiliskipulagsgerð árum saman og byggingafulltrúi hafi hvorki stöðvað byggingu húsanna né leyft hana. Þegar hann var spurður hvort þetta væru óleyfisbústaðir sagði hann: „Það má túlka það þannig.“