Edda Falak hefur hafið störf á ritstjórn Heimildarinnar og byrjar með nýja þætti sem hefja göngu sína í mars.
Þættirnir bera yfirskriftina: „Edda Falak“ og samkvæmt tilkynningu á vef Heimildarinnar mun Edda „halda áfram að fjalla um margvíslegar birtingarmyndir ofbeldis og áhrif þess á þolendur og samfélagið, auk þess að sinna öðrum verkefnum. Þættir undir hennar stjórn koma áfram út í nýrri mynd undir merkjum Heimildarinnar.“
„Fyrir mig er mikils virði að vera orðin hluti af ritstjórn Heimildarinnar, þar sem ég fæ tækifæri til að fjalla um mál í víðara samhengi en áður. Ég er mjög spennt fyrir komandi tímum,“ segir Edda.
Áskrifendur Heimildarinnar munu hafa aðgengi að þáttunum en einnig verður hægt að kaupa áskrift aðeins að þáttunum – í gegnum vef Heimildarinnar – og kostar hún 1.390 krónur á mánuði.
Hlaðvarpsþættirnir Eigin Konur hófu göngu sína í mars 2021 og fóru fljótlega að hafa afgerandi áhrif á þjóðfélagsumræðuna með afhjúpandi viðtölum við meinta þolendur ýmissa þjóðþekktra einstaklinga. Í mars 2022 hóf hún samstarf við Stundina og var auk þess með Patreon-síðu þar sem áskrifendur gátu keypt aðgang að þáttum hennar.
Í síðustu viku greindi DV frá því að enginn þáttur af Eigin Konum hafði komið út í tvo mánuði án þess að greint væri frá því að Edda væri að fara í frí, eða að hætt væri að rukka áskrifendur á Patreon-síðu þáttarins. Síðan er enn virk og ekki hefur komið fram hvað verður um hana.