Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur beint þeim skilaboðum til hótelstarfsmanna og bílstjóra að vera í viðbragðsstöðu til að hefja verkfallsaðgerðir að nýju á miðnætti í kvöld.
Eru þessir félagar Eflingar beðnir um að fylgjast náið með skilaboðum frá félaginu næstu klukkutíma, eins og segir á vef Eflingar.
Umræddir hópar hófu ótímabundnar verkfallsaðgerðir sínar 7. og 15. febrúar en samninganefnd frestaði aðgerðunum síðastliðið fimmtudagskvöld. Rennur frestunin út á miðnætti í kvöld.
Samninganefnd Eflingar hefur fundað í dag og undanfarna daga í karphúsinu með Ástráði Haraldssyni, settum ríkissáttasemjara um nýja kjarasamninga, og Samtökum atvinnulífsins.