fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Fréttir

Nærmynd af Ástráði: Settur ríkissáttasemjari í harðri deilu Eflingar og SA

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 15. febrúar 2023 19:30

Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ástráður Haraldsson, héraðsdómari, var á þriðjudag, settur ríkissáttasemjari í yfirstandandi vinnudeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins. Samþykkti stjórn dómstólasýslunnar að veita Ástráði leyfi frá dómarastörfum og hófst leyfið sama dag.

En hver er maðurinn sem settur er til að sætta deilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins?

Ástráður er fæddur 27. ágúst 1961, lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1990. Ástráður var fyrirferðamikill í stúdentapólitíkinni á sínum tíma og sat meðal annars í Háskólaráði HÍ árin 1986-1988 fyrir hönd Félags vinstrimanna. Á meðal vina og kunningja gekk hann iðulega undir nafninu Stráði. 

Hann starfaði sem lögmaður í Reykjavík frá 1992 og öðlaðist málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti árið 1995. Hann vann, meðfram lögmennsku, í hlutastarfi sem lögfræðingur og forstöðumaður vinnuréttarsviðs Alþýðusambands Íslands á árunum 1995-2000 og hefur einnig verið í hlutastarfi sem aðstoðarsáttasemjari við embætti ríkissáttasemjara.

Ástráður var meðfram lögmennsku í hlutastarfi sem dósent við Háskólann á Bifröst árin 2002-2017, þar sem hann kenndi meðal annars starfsmannarétt. Hann hefur sem fræðimaður einkum fjallað um vinnurétt og stjórnsýslurétt. Ástráður hefur samkvæmt fyrrgreindu mikla þekkingu og reynslu á sviði vinnuréttar og hvers kyns kjaramála.

Hann hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir Vinstri græn (VG) og Alþýðubandalagið sáluga. Ástráður var meðal annars skipaður í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur fyrir hönd VG þegar tjarnarkvartettinn svokallaði tók við völdum í borginni haustið 2007.

Tengdur fjölskylduböndum við helsta vinnumarkaðssérfræðing landsins

Ástráður var giftur Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra. Eiga þau tvö börn, Odd sem er fæddur árið 1984 og Auði sem er fædd árið 1986. Oddur er lögfræðingur og var meðal annars í hópi þeirra sem tókust á við Sólveigu Önnu Jónsdóttur formann Eflingar um yfirráð í Eflingu.

Ástráður er í dag giftur Eyrúnu Finnbogadóttur, tónmenntakennara.

Þorsteinn Haraldsson, endurskoðandi, er bróðir Ástráðs. Eiginkona Þorsteins er Lára V. Júlíusdóttir, lögfræðingur og sérfræðingur í vinnumarkaðsrétti. Lára hefur skrifað fræðibækur og kennslubækur um vinnumarkaðsrétt og í fjölda ára tjáð sig opinberlega í viðtölum sem sérfræðingur um vinnumál og kjaraviðræður.

Lára V. Júlíusdóttir

Ítrekað hafnað í sæti dómara Landsréttar

Ástráður hefur verið héraðsdómari frá árinu 2018 og þegar Landsréttur var settur á fót árið 2017 sótti hann um stöðu dómara en fékk ekki. Ranglega var skipað í dóminn og fékk Ástráður bætur vegna þess.

Ástráður sótti um starf borgarlögmanns árið 2017, en þar var Ebba Schram valin framyfir hann. Fékk Ástráður þrjár milljónir frá Reykjavíkurborg vegna þess, þar sem sannað þótti að Reykjavíkurborg hefði brotið jafnréttislög með ráðningu Ebbu. 

Ástráður hefur sex sinnum reynt að fá starf dómara við Landsrétt, án árangurs. Frægast er hið svokallaða Landsréttarmál þegar Ástráður sóttist fyrst eftir stöðu Landsréttardómara árið 2017. Það varð til þess að velta þáverandi dómsmálaráðherra úr stóli, Sigríði Á. Andersen, eftir að Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að allir 15 dómarar Landsréttar hefðu verið skipaðir með ólögmætum hætti. Fékk Ástráður þá 700 þúsund dæmdar í miskabætur. Í því máli var Ástráður metinn 14. hæfasti umsækjandinn. Farið var yfir umsóknarferil Ástráðs til dómarasætis hjá Landsrétti í frétt DV 15. september 2020.

Ástráður snuðaður í sjötta sinn

Í frétt DV 20. febrúar 2012 kom fram að Ástráður hefði fengið tæplega 250 milljónir króna afskrifaðar hjá skilanefnd Glitnis árinu áður. Afskriftin var vegna útistandandi skuldar Ástráðs við Glitni vegna framvirkra samninga með skuldabréf Kaupþings. 

Ástráður taldi ekki að um afskriftir hefði verið að ræða. Og segir í fyrrnefndri frétt DV: 

„Ég hef ekkert fengið afskrifað, ekkert fengið afskrifað,“ segir Ástráður Haraldsson aðspurður um það hvort hann hafi fengið umræddar afskriftir hjá Glitni. Hann segir að hann hafi farið í skuldauppgjör við Glitni sem ekki hafi falið í sér afskriftir að hans mati. „Ég átti ákveðin viðskipti við Glitni og það var deilt um hvert væri rétt uppgjör þessara viðskipta. Ég taldi að rétt uppgjör viðskiptanna væri að Glitnir skuldaði mér fé en þeirra afstaða var sú að ég skuldaði þeim fé. Niðurstaðan af þessu öllu saman, fyrir milligöngu lögmanns á mínum vegum, var að samið var um uppgjör viðskiptanna. Í því fólst ekki afskrift á kröfum á mig, ekki samkvæmt minni skoðun. Þetta er þannig að ef ég held að þú skuldir mér 100 milljónir og þú heldur að ég skuldi þér 100 milljónir og við semjum síðan um einhverja niðurstöðu í málinu þá getur hvor okkar um sig haldið því fram að hann hafi afskrifað eitthvað á hinn,“ segir Ástráður. Ljóst er hins vegar að Glitnir leit ekki svo á málið þar sem rúmlega 248 milljónir króna voru færðar til afskriftar vegna viðskiptanna við Ástráð.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jón Þór svarar ákæru um manndrápstilraun og fleiri brot

Jón Þór svarar ákæru um manndrápstilraun og fleiri brot
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vörubílstjóri þóttist vera annar maður – Var líka fullur og próflaus

Vörubílstjóri þóttist vera annar maður – Var líka fullur og próflaus
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Greindist með brjóstakrabbamein eftir fyrirbyggjandi brjóstnám og fær engar bætur

Greindist með brjóstakrabbamein eftir fyrirbyggjandi brjóstnám og fær engar bætur
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ragnheiður skoðaði íbúð á föstudegi en á mánudegi var búið að selja hana – „Og hverjum haldið þið?“

Ragnheiður skoðaði íbúð á föstudegi en á mánudegi var búið að selja hana – „Og hverjum haldið þið?“