Mæðginin Guðmundur Sölvi Ármannsson, 13 ára, og Ragnheiður Sölvadóttir, gengu á fund Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra fyrr í kvöld. Guðmundur Sölvi fæddist með tvíklofna vör og góm og í viðtali við DV í lok janúar sagðist móðir hans þreytt á áralangri baráttu við kerfið, baráttu sem hefur staðið yfir í níu ár.
Guðmundur Sölvi fékk bréf frá Sjúkratryggingum Íslands þar sem honum var tilkynnt að stofnunin tæki ekki þátt í frekari niðurgreiðslu vegna tannréttinga nema hann fari í endurmat hjá tannlæknadeild Háskóla Íslands. Furðar móðir hans sig á því að hann þurfi ítrekað í endurmat og skoðanir.
„Frábær áheyrn heilbrigðisráðherra og tók hann vel í okkar mál og var hann líka held ég pínu hissa á öllu þessu ferli, drengurinn afhenti ráðherra bréfin og var mikið hrósað fyrir að hafa komið með. Munum við fá boð von bráðar til ráðherra í ráðuneyti ásamt stjórn félagsins,“ skrifar Ragnheiður í færslu á Facebook. Og birtir mynd af Guðmundi Sölva og Willum Þór.
„Hversu galið er það að setja barn í þessa óvissu í miðri meðferð?“