fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Fréttir

Konur segjast í sárum eftir svikahrapp – „Við erum peningalausar, atvinnulausar, án húsnæðis. Hvað eigum við að gera?“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 14. febrúar 2023 12:54

F.h. Martyna Ciecholińska, Alina Kottlewska, Małgorzata Olszewska, Aleksandra Trzopek og Natalia Jakrzewska. Mynd: Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Síðastliðinn laugardag átti DV fund með nokkrum pólskum konum sem hafa flestar verið hér á landi í um mánaðartíma eftir að hafa ráðið sig til starfa hjá hreingerningarfyrirtæki. Konurnar hafa ekki fengið greidd laun og ekki hefur verið staðið í skilum með gistingu fyrir þær. Konurnar sem DV ræddi við eru fimm en munu vera hluti af stærri hópi sem segist eiga um sárt að binda vegna viðskipta við manninn sem í hlut á. Þær heita Martyna Ciecholińska, Alina Kottlewska, Małgorzata Olszewska, Aleksandra Trzopek og Natalia Jakrzewska.

Maðurinn sem réði þær til starfa heitir Adamka Przemyslaw. Hann er eftirlýstur í Póllandi fyrir fjársvik samkvæmt þessari tilkynningu. DV ræddi við manninn og sjónarmið hans koma fram síðar í greininni.

Verkefna- og húsnæðislausar

Konurnar lýstu því fyrir DV að þær hafi svarað atvinnuauglýsingu á netinu og ráðið sig til starfa hjá fyrirtæki sem bar heitið „Cleanhomes ehf.“ Það fyrirtæki er raunar ekki til en einhvers konar deild undir þessu heiti var starfrækt undir fyrirtækinu PR Hús. Konunum var sagt að starf þeirra myndi felast í þrifum á Hótel Vogum. Einnig var þeim sagt að þær ættu að sinna þrifum í verslunum Krónunnar.

Þegar til átti að taka voru þessi verkefni ekki fyrir hendi og var konunum tjáð að ekki væri búið að landa samningum við þessa verkkaupa eins og til hefði staðið. Konurnar voru engu að síður komnar í bindandi launasamband við PR Hús og voru þær látnar þrífa og mála skrifstofuhúsnæði fyrirtækisins. Þær segjast hins vegar hafa að mestu leyti verið verkefnalausar.

Þær eru í raun líka húsnæðislausar. Þeim var lofað samastað en var síðan tjáð að íbúðir sem þær ættu að búa í væru ekki tilbúnar og voru þær vistaðar á hóteli. Gisting hefur hins vegar ekki  verið greidd fyrir konurnar nema að litlu leyti. Þær voru eina nótt á einu hóteli í Reykjavík en þurftu að greiða fyrir þá gistingu með þrifum og síðan hafa sig á brott. Þær hafa að mestu haldið til á öðru hóteli í Reykjavík en þar hefur eigandanum tekist með eftirgangsmunum að innheimta um 35% af gistikostnaðinum. Í augnablikinu gista konurnar á staðnum upp á náð eigandans.

Konurnar segjast engin laun hafa fengið greidd. Þeim hefur hvað eftir annað verið tjáð að launin séu á leiðinni, um sé að ræða einhvern tæknilegan vanda varðandi samskipti við banka. DV hefur undir höndum fjölmörg skjáskot af samkiptum í þessa veru, flest eru á pólsku og vélþýdd á ensku. Einnig hefur DV undir höndum skjáskot af ráðningarsamningum nokkurra kvennanna.

Síðast var konunum lofað launagreiðslu í gær en í morgun bárust þeim skilaboð í stíl við fyrri loforð. Hér gefur að líta skjáskot af þeim samskiptum:

Kæra til lögreglu og Eflingar

Samkvæmt ráðningarsamningum eru konurnar skráðar í Eflingu og hafa þær kært framgöngu PR-Húsa og Adamka til Eflingar. Ennfremur hafa þær tilkynnt málið til lögreglu og munu leggja fram formlega kæru hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu kl. 15 í dag.

Óska eftir vinnu á Íslandi

„Við erum peningalausar, atvinnulausar, án húsnæðis. Hvað eigum við að gera?“ Fjórar af konunum fimm sem DV ræddi við greiddu sjálfar fyrir fargjaldið til Íslands og þær eiga ekki peninga fyrir farinu heim. Sú sem fékk farið greitt þurfti reyndar að greiða aukagjald fyrir farangur. Aðspurðar segjast konurnar fimm þó miklu fremur vilja vinnu og húsnæði hér á landi en farmiða heim til Póllands því þær þyrstir í vinnu og eru samkvæmt heimildum DV annálaðar fyrir dugnað.

„Við viljum vinna og okkur er sagt að atvinnuástand sé gott hérna. Við vonum innilega að einhver heiðarleg fyrirtæki vilji ráða okkur til starfa,“ segja þær.

Sakaði konurnar um þjófnað á sendibíl

DV ræddi við Adamka vegna málsins á laugardaginn. Hann var afar ósáttur við að greinaskrif væru í uppsiglingu og sagðist hafa staðið heiðarlega að málum. Hann sagði að samningar við verkkaupa, sem hefðu tafist, væru í burðarliðnum og ennfremur að launagreiðslur myndu berast á mánudag. Starfskona á vegum PR-Húsa hafði síðan samband við DV og skýrði frá því að konurnar hefðu stolið sendibíl í eigu fyrirtækisins. Um er að ræða bíl sem konurnar komu á til gistingarinnar á áðurnefndu hóteli. Samkvæmt gögnum sem DV hefur undir höndum var bíllinn gerður upptækur í tengslum við gjaldþrot fyrirtækisins Furuverk ehf. sem var í eigu Adamka, en fyrirtækið var tekið til gjaldþrotaskipta í september 2022. DV hefur staðfestar heimildir frá fyrstu hendi um að umræddur bíll sé í eigu þrotabúsins.

DV barst bréf frá PR Húsum í morgun þar sem segir að launagreiðslur til kvennanna séu á leiðinni. Ennfremur séu frásagnir um vandamál varðandi gistingu byggðar á misskilningi. Ráðningarsamningur hafi tekið gildi 10. janúar og launagreiðslur hafi því átt að berast 10. febrúar. Vegna vandræða varðandi bankareikning fyrirtækisins hafi greiðslurnar tafist lítillega.

Varðandi spurningar DV um sakamál gegn Adamka í Póllandi er bent á að lögfræðingur hans vinni að úrlausn málsins en ekki sé heimilt að leggja fram nein gögn í því að svo stöddu en PR Hús segjast fullviss um að ásakanirnar séu rangar og málið verði fellt niður.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Viðbragð Veðurstofunnar virkjað í nótt: Töldu að kvikuhlaup gæti verið að hefjast

Viðbragð Veðurstofunnar virkjað í nótt: Töldu að kvikuhlaup gæti verið að hefjast
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Gat ekki tjáð sig öðruvísi en með öskrum og svívirðingum

Gat ekki tjáð sig öðruvísi en með öskrum og svívirðingum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Netárás tók endurritun internetsins úr sambandi

Netárás tók endurritun internetsins úr sambandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þessi töluðu minnst á Alþingi á kjörtímabilinu

Þessi töluðu minnst á Alþingi á kjörtímabilinu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Flýja til Íslands á meðan forsetakosningarnar standa yfir – „Það verður svo mikill hávaði og svo mikil ringulreið“

Flýja til Íslands á meðan forsetakosningarnar standa yfir – „Það verður svo mikill hávaði og svo mikil ringulreið“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ný könnun: Viðreisn nartar í hælana á Samfylkingunni – Píratar og VG í klandri

Ný könnun: Viðreisn nartar í hælana á Samfylkingunni – Píratar og VG í klandri