Útgjöldin jukust um 58,7% miðað við janúar á síðasta ári og tekjurnar lækkuðu um 35,1% miðað við janúar á síðasta ári.
Þessi mikli hallarekstur þýðir að nú þegar er ríkissjóður búinn að nota 60% af þeim halla sem reiknað var með að verði á rekstri hans á þessu ári.
Ástæðan fyrir þessum mikla hallarekstri er auðvitað kostnaðarsamur stríðsrekstur í Úkraínu og refsiaðgerðir Vesturlanda.
Fjármálaráðuneytið segir að allt sé í jafnvægi en samt sem áður seldi það bæði gull og kínversk jen í janúar til að mæta hallarekstrinum. 3,6 tonn af gulli voru seld og 2,3 milljarðar jena. Þetta færði ríkissjóði sem svarar til um 76 milljarða íslenskra króna.
Rússar komust ótrúlega vel í gegnum síðasta ár efnahagslega en nú hafa þeir vaknað upp við vondan draum því í byrjun desember tók bann við innflutningi á rússneskri hráolíu, sjóleiðis, til ESB gildi. Á sama tíma tók verðþak á rússneska hráolíu gildi en það er 60 dollarar á tunnu.
Þetta olli verðfalli á rússneskri Úralolíu. Hráolíuverð á heimsmarkaði er nú nánast það sama og fyrir ári en öðru máli gildir um rússneska olíu sem er 60% ódýrari.
Á sunnudaginn bætti ESB enn í refsiaðgerðir sínar og nær innflutningsbannið á olíu nú einnig til unninna vara á borð við dísilolíu og flugvélaeldsneyti. Einnig falla unnar rússneskar olíuvörur nú undir það verðþak sem ESB stendur fyrir í samstarfi við G7.