fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Fréttir

Skiptar skoðanir um slaufun Ivu Marín – „Ég myndi persónulega ekki vilja standa að því að útiloka fólk frá þátttöku í samfélaginu til að passa upp á einhverja PR-ímynd“ 

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 7. febrúar 2023 13:56

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Segja má að samfélagið sé klofið yfir máli söngkonunnar og aktívistans Ivu Marin Adrichem. Hún steig fram í viðtali í hlaðvarpsþættinum Spjallið með Frosta Logasyni þar sem hún greindi meðal annars frá því að Ferðamálastofa hefði ákveðið að taka auglýsingaherferð, þar sem hún er í forsvari um aðgengi fatlaðra að ferðamannastöðum, úr birtingu. Ástæðan voru kvartanir sem bárust frá Sjálfsbjörg og ÖBÍ vegna þátttöku Ivu Marín í ljósi skoðana hennar á transfólki og ákvað settur ferðamálastjóri, Elías Bj. Gíslason, að ráðast í gerð nýrrar herferðar, með tilheyrandi fjárútlátum, þar sem nýr aðili yrði andlit herferðarinnar.

Óhætt er að fullyrða að sitt sýnist hverjum um málið. Iva Marín sagði sjálf að um væri að ræða brot á mannréttindum hennar og hún hygðist leita réttar síns. Söngkonan hefur reglulega vakið athygli og umtal fyrir skoðanir sínar, ekki síst vegna þess að þær eru stundum á öndverðum meiði við þá minnihlutahópa sem hún tilheyrir en Iva Marín hefur verið blind frá fæðingu og er samkynhneigð.  Sem dæmi um skoðanir sem Iva Marín hefur vakið athygli fyrir er að hún telur  að það sé ekki rétt að konum sé kerfisbundið haldið niðri í samfélaginu. Þá hefur hún gagnrýnt talsmenn ýmissa „háværra minnihluta“ sem hún segir að stjórni umræðunni og leyfi ekki mismunandi skoðanir einstaklinga sem tilheyri þessum minnihlutahópum. Mesta umtalið tengist þó aðkomu Ivu Marínar að LGB-teyminu sem sagt hefur verið beita sér gegn réttindum transfólks og sé tilraun til þess að flytja inn transfóbíska orðræðu til Íslands.

Myndi ekki vilja útiloka fólk til að passa upp á PR-ímynd

Fjölmiðlakonan Þóra Kristín Ásgeirsdóttir er ein þeirra sem hefur tjáð sig um málið. Segist hún hugsi yfir þeirri þróun að við sem samfélag förum að ritskoða fólk og refsa því með þessum hætti. „Þótt við þurfum að standa vörð um transfólk og þeirra líf þá er engum greiði gerður með þessu. Ég hef heldur ekki heyrt eða séð neinn rökstuðning með þessari ákvörðun. Ég myndi persónulega ekki vilja standa að því að útiloka fólk frá þátttöku í samfélaginu til að passa upp á einhverja PR-ímynd.“

Ekki séð Ivu básúna óhuggulegar skoðanir

Mikil umræða skapaðist um færslu Þóru Kristínar og birti Hildur Lilliendahl meðal annars neðangreint skjáskot af færslu Ivu Marín til stuðnings málstað J.K. Rowling sem einskonar sönnun á meintu transhatri hennar. Spurði hún Þóru Kristínu hvort að sér þætti í alvöru eitthvað óeðlilegt við að fyrirtæki kjósi að láta ekki bendla sig við óhuggulegar skoðanir á hinsegin fólki. Þóra svaraði:

„Ég hef ekki séð þessar óhuggulegu skoðanir Ivu sem þú ert að tala um. Mér finnst oftast gaman að sjá það sem hún er að pæla af því hún er súperklár og óhrædd við að tjá sig en ég er ekki endilega alltaf sammála henni. Mér finnst líka gaman að sjá konur eins og Uglu Stefaníu tjá sig, því hún er líka súperklár. Mér finnst umræða skemmtilegri ef við þurfum ekki alltaf að vera að passa okkur á sjálfskipuðum útvörðum einhverra hópa og getum talað frjálst. Mér fannst þessi hópur LGB hópur samkynhneigðra ganga of langt og vera meiðandi en ég hef ekki sé Ivu básúna neinar óhuggulegar skoðanir.“

Vill bjóða ofstækisliðinu birginn

Brynjar Níelsson greip málið einnig á lofti og taldi það dæmi um hversu auðvelt það væri að fá fólk til að taka þátt í kúgun og ofbeldi gagnvart öðru fólki. „Við hrökklumst alltaf undan ofstækisliðinu í stað þess að bjóða því birginn. Þótt Iva Marín sé blind er hún með betri sýn en við flest og er greinilega skelegg og bráðvelgefin. Hún er málefnaleg og kemur hugsun sinni vel frá sér. Hún er efni í góðan lögfræðing,“ skrifaði Brynjar en einhverjir töldu að hann hafi gert Ivu Marín óleik með síðustu setningunni.

Segir Brynjar vera úti í skurði

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, svaraði færslu Brynjars og sagði hann vera gjörsamlega úti í skurði. „Því minnihlutahópurinn sem verður fyrir ofbeldi og kúgun í stærra samhengi hér er ekki blindar söngkonur sem fá ekki að vera með í auglýsingamyndböndum því þær hafa ímugust á transfólki heldur transfólkið, sjáðu til. Fólk hefur fullt málfrelsi. Fólk hefur hins vegar ekki frelsi frá því að annað fólk, samtök eða stofnanir hafi skoðanir á því sem það segir og gerir og taki ákvarðanir út frá því um hvort það á heima í kynningarmyndböndum,“ skrifaði Jóhannes.

Borgarfulltrúinn á sama máli

Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata, lét einnig til sín taka í umræðunni um málið og var á svipuðum slóðum og Jóhannes Þór.

„Er það ekki frekar augljóst að þegar einhver aðili vill fara í vitunarvakningu um eitthvað ákveðið mál, þá getur það skipt máli að velja ekki fólk í þá auglýsingu sem sendir með nærveru sinni einhver önnur skilaboð?“ skrifaði Alexandra í færslu á Hinsegin-spjallinu.

Hún nefnir sem dæmi að hún sjálf sé orðin aðeins þekkt í samfélaginu fyrir þau málefni sem brenna á henni og því geti það takmarkað möguleika hennar í framtíðinni. Tók hún sem dæmi að bílainnflytjendur myndu varla birta auglýsingu með henni sem baráttukonu fyrir borgarlínu né myndu útgerðarfyrirtæki vilja þekktan andstæðing kvótakerfisins í sínu kynningarefni. Persóna hennar gæti kallað á  sjálfstæð hugrenningatengsl sem eru oft um eitthvað annað en það sem er tilgangur auglýsingarinnar.

Verðum að gefa fólki útgönguleið

„En það er samt málið að þú þarft ekkert að vera opinber persóna  til að þetta gildi. Ef auglýsandi metur það sem svo að nærvera þín get afvegaleitt frá tilgangi auglýsingarinnar út af einhverju sem þú hefur orðið þekkt eða þekktur fyrir, þá er það þeirra mál að ákveða hvort þau vilji sleppa að nota þig. (Þó auðvitað þurfi þau að greiða fyrir þinn tíma eftir sem áður ef um launað starf er að ræða, nema sérstaklega hafi verið samið um annað) Að því sögðu hef ég pínu samúð með því að ungt fólk getur gjarnan lent í því að taka einhverja lélega afstöðu og eiga svo erfitt með að bakka og það verði eitthvað sjálfstætt stolt í því að láta ekki þrýsta sér til þess sama hvað. Við sem samfélag þurfum kannski stundum að gefa fólki einhverja útgönguleið úr stöðu, jafnvel sem það hefur komið sér í sjálft, ef við viljum að þau upplifi að það sé í boði að koma til baka, annars verður alltaf freistandi að dobbla bara og þannig verða til mjög hættulegar öfgar,“ skrifar borgarfulltrúinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kristján fengið nóg: „Ónæðið held­ur áfram og byrjaði nú síðast klukk­an 7 í morg­un“

Kristján fengið nóg: „Ónæðið held­ur áfram og byrjaði nú síðast klukk­an 7 í morg­un“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kristinn gagnrýnir hvernig talað er um Palestínumenn – „Smekklegt“

Kristinn gagnrýnir hvernig talað er um Palestínumenn – „Smekklegt“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Auglýsingar 20Bet að gera Íslendinga sturlaða – „Ég er við það að hætta alveg að horfa á YouTube“

Auglýsingar 20Bet að gera Íslendinga sturlaða – „Ég er við það að hætta alveg að horfa á YouTube“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Illugi furðar sig á Mannanafnanefnd – „Ætti að vera fyrsta sparnaðarleið Kristrúnar Frostadóttur að leggja niður þessa idjótísku nefnd“

Illugi furðar sig á Mannanafnanefnd – „Ætti að vera fyrsta sparnaðarleið Kristrúnar Frostadóttur að leggja niður þessa idjótísku nefnd“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Bryggjan brugghús komið á sölu

Bryggjan brugghús komið á sölu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sakaður um vanrækslu á syni sínum – Drengurinn vissi ekki eigin aldur

Sakaður um vanrækslu á syni sínum – Drengurinn vissi ekki eigin aldur