Ragnar Þór Egilsson deildi í gærkvöldi myndbandi úr eftirlitsmyndavél sem hann hefur við heimili sitt inn á hóp íbúa á Digranesi í Kópavogi. Þar má sjá aðila sem er klæddur grímu og skikkju ganga örna sinna á bíl Ragnars.
Ragnar skrifaði með færslunni: „Hvaða skilaboð voru þetta?“
Á myndbandinu má sjá aðila sem er með grímu og í skikkju ganga í rólegheitunum að bíl Ragnars og virða bílinn fyrir sér í smá stund áður en hann lætur vaða – girðir niður um sig, hallar sér fram og kúkar á húddið á bílnum. Virðist athæfið hafa verið skipulagt enda aðilinn með klósettpappír á sér. Eitthvað gekk þó erfiðlega að nota klósettpappírinn í vindinum svo eftir stutta tilraun til að þrífa sig hendir þrjóturinn pappírnum frá sér og lætur sig hverfa.
Taldi Ragnar ljóst að viðkomandi hafi vitað af eftirlitsmyndavélinni og þess vegna brúkað grímu við athæfið. Bað hann íbúa um að skoða myndavélar sínar í von um að hægt væri að bera kennsl á þrjótinn.
Í samtali við DV segist Ragnar sannfærður um að málið tengist hatrömmum nágrannaerjum sem Ragnar hefur staðið í og tengjast þvottahúsi í húsinu sem Ragnar telur vera sína séreign.
DV hefur fjallað ítarlega um málið.
Sjá einnig:
Ragnar sagði í samtali við DV að hann hafi fylgst með atvikum í rauntíma enda er hann með skjá sem er tengdur eftirlitsmyndavél sem horfir yfir bílastæði hans. Bílastæðið sé þannig staðsett að enginn eigi þar leið um án þess að eiga þangað erindi.
Sá hann á skjánum hvar grímuklæddur aðili kom að bílnum og virtist vera að kanna aðstæður. Taldi Ragnar að þarna væri á ferðinni glæpamaður, enda ekki ótítt í hverfinu að glæpamenn komi og kanni hvort hægt sé að komast inn í bíla og híbýli og hafi margir í hverfinu, líkt og Ragnar, komið upp eftirlitsmyndavélum til að vakta eignir sínar.
Aðilinn var þarna hjá bílnum í smá stund, fór svo og pældi Ragnar ekki meira í þessu.
En svo kom viðkomandi aftur og athafnaði sig líkt og áður segir.
Sjálfur er Ragnar í hjólastól svo hann gat ekki hlaupið út til að stöðva viðkomandi svo hann fylgdist bara með athæfinu í beinni útsendingu.
„Ég átti ekki von á þessu,“ sagði hann í samtali við blaðamann.
Ragnar segist sannfærður um að málið tengist áðurnefndum nágrannaerjum. Þrátt fyrir niðurstöðu Landsréttar í málinu, um að þvottahúsið sé sameign, þá hafi Ragnar ekki veitt nágrannanum aðgang að þvottahúsinu og nú sé sá nágranni fluttur út.
Ljóst sé að ekki hafi þarna umræddur nágranni þó verið á ferðinni en Ragnar telur að einhver tengsl séu þarna á milli. Hann áttar sig þó ekki alveg á því hvaða skilaboð hann eigi að taka til sín af þessu gjörningi.
„Ef þetta eru einhver skilaboð þá er ég bara of heimskur til að skilja þau. Ég þarf betri skilaboð“