Þetta sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, á mánudaginn þegar hann var í heimsókn í Suður-Kóreu. Hann sagði ekki hægt að segja til um hvenær stríðinu lýkur.
„En það sem við vitum er að þetta er árásarstríð. Þetta er stríð sem Pútín forseti ákvað að hefja. Hann ákvað að ráðast inn í annað land, fullvalda evrópskt lýðræðisríki. Pútín getur bundið enda á stríðið í dag,“ sagði Stoltenberg og bætti við að vandinn sé að „engin merki sjáist“ um að Pútín eða aðrir rússneskir valdamenn séu að undirbúa frið. „Við sjáum hið gagnstæða. Við sjáum að þeir eru að undirbúa sig undir meiri átök, að þeir herkveða fleiri hermenn, fleiri en 200.000 og hugsanlega enn fleiri en það,“ sagði hann.
„Þetta verður hættulegt fyrir okkur öll. Þetta mun gera heiminn hættulegri,“ sagði hann einnig.
Hann vakti einnig athygli á að Pútín og rússneski herinn séu sífellt að verða sér úti um ný vopn og skotfæri. Meðal annars með því að framleiða þau innanlands og með því að kaupa þau frá öðrum einræðisríkjum, til dæmis Íran og Norður-Kóreu.