„Annað hvort fá Pólverjar heimild til að senda Leopard skriðdreka af stað eða þá þeir gera „það rétta sjálfir“. Þetta sagði Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, í viðtali sem var tekið við hann í gær þegar hann hélt heim á leið frá World Economic Forum í Davos í Sviss.
Það þarf heimild frá Þjóðverjum til að senda Leopard skriðdreka til Úkraínu því þeir voru framleiddir í Þýskalandi og þegar þeir voru keyptir var ákvæði sett í kaupsamninginn um að Þjóðverjar verði að veita heimild fyrir því að Pólverjar selji þá eða gefi. En Pólverjar gefa ekkert fyrir þetta ákvæði núna og segjast munu afhenda Úkraínumönnum skriðdrekana ef Þjóðverjar gefa ekki grænt ljós á það fljótlega.