Þetta sést á myndum og myndböndum sem var dreift á samfélagsmiðlum í gær og vöktu mikla athygli.
Talið er að loftvarnarkerfum hafi verið komið fyrir á fjölda opinberra bygginga í miðborginni. Einnig sýnir ein upptakan þegar Pantsir-loftvarnarkerfi er híft upp á þak átta hæða byggingar sem er í tæplega tveggja kílómetra fjarlægð frá Kreml.
The Guardian segir að hinir áhrifamiklu rússnesku herbloggarar hafi veitt þessu eftirtekt og að margir þeirra túlki þetta sem svo að yfirmenn hersins hafi áhyggjur af að árásir verði gerðar á rússneskar borgir.
Einn þessara bloggara er Alexander Kots, þekktur stríðsfréttaritari, sem starfar náið með rússneska hernum og fjallar daglega um stríðið fyrir dagblaðið KP sem er undir hæl Kremlverja. Á Telegram skrifaði hann að hann telji þetta jákvætt merki. Þetta þýði að allir átti sig á hættunni og skilji að það sé aðeins tímaspursmál hvenær ráðist verður á Moskvu og héraðið.
Yfirvöld hafa ekki staðfest að loftvarnarkerfi hafi verið sett upp í Moskvu og því hafa þau heldur ekkert sagt um tilganginn með þessu.
Á síðustu vikum hafa rússneskir fjölmiðlar skýrt frá uppsetningu S-400 langdrægra flugskeytakerfa í Moskvu. Bandaríska hugveitan Jamestown Foundation segir að S-400 og Pantsir-S1 kerfin vinni saman og sé hægt að nota þau saman til loftvarna.