Skúli Tómas Gunnlaugsson, sem grunaður er um að hafa orðið sex manns að bana með því að setja þau í ótímabæra lífslokameðferð á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS), hefur snúið aftur til starfa á Landspítalanum eftir að hafa tekið sér leyfi frá störfum þar um tíma.
RÚV greinir frá þessu.
Lögreglan er við að ljúka rannsókn sinni í málinu og verður það sent til héraðssaksóknara síðar í þessu mánuði. Héraðssaksóknari mun taka ákvörðun um hvort Skúli Tómas verður ákærður eða ekki.
Skúli Tómas missti lækningaleyfi sitt í fyrra í kjölfar svartrar skýrslu Landlæknis um vinnubrögð hans á HSS. Ættingjar konu sem lést eftir að hafa verið sett á lífslokameðferð, eftir að hún lagðist inn til hvíldarmeðferðar, kærðu Skúla Tómas til lögreglu fyrir manndráp af yfirlögðu ráði.
Skúli Tómas var síðan ráðinn á Landspítalann og fékk starfsréttindi sín endurheimt að hluta. RÚV greinir frá því að hann hafi fengið rýmra starfsleyfi í þessu mánuði. Ennfremur kemur fram að Skúli Tómas hafi farið í leyfi frá Landspítalanum í fyrra að eigin ósk. Hann er nú kominn til starfa þar aftur.