Þýski miðillinn Focus skýrir frá þessu og segir að Vladímír Pútín, forseti, og herforingjar hans taki ekki lengur tillit til heilsufarsástands hermanna.
Miðillinn byggir þessa frétt sína á upplýsingum frá óháðu fréttastofunni Agentstvo. Valentina Melnkikov, ritari samtakanna „Mæðranefndin“, sem eru samtök kvenna sem eiga syni eða eiginmenn á vígvellinum, tjáði sig um þetta við miðilinn. Hún sagði að að „óásættanlega hátt hlutfall hermanna sé sent aftur á vígvöllinn, þrátt fyrir að þeir séu ekki bardagafærir“.
Hermenn með alvarlega lungnabólgu hafa að sögn verið sendir beint aftur á vígvöllinn. Það sama á við um menn með alvarlega líkamlega áverka, þeir eru að sögn sendir aftur á vígvöllinn áður en þeir fá nokkru meðhöndlun að ráði. Það sama er sagt eiga við um unga menn sem hafa fengið heilablóðfall.
Heilbrigðisstarfsfólk í Moskvu er einnig sagt vera byrjað að kvarta undan þessu og mannúðarsamtök taka undir þær kvartanir.
„Við upplifum mál þar sem hermenn, sem hafa fengið nútíma læknismeðferð í hæsta gæðaflokki, fá ekki þá hvíld sem þeir þurfa né endurhæfingu og eru sendir beint aftur á vígvöllinn,“ sagði Olga Demitsjeva, hjá samtökunum Dr. Liza‘s Fair Help.