Akrar undir vatni, meters þykk leðja og ófært land. Það er þetta sem einkennir landamæri Úkraínu og Hvíta-Rússlands þessa dagana. Háttsettur úkraínskur herforingi sagði nýlega að þetta væri Úkraínu í hag ef Rússar og Hvít-Rússar ráðast inn í landið frá Hvíta-Rússlandi.
Valerii Zaluzhnyi, æðsti yfirmaður úkraínska hersins, varaði við slíkri árás nýlega í samtali við The Economist. Þá sagði hann að Rússar væru að undirbúa 200.000 óþreytta hermenn undir innrás og sagðist hann ekki í neinum vafa um þeir muni aftur reyna að ná Kyiv á sitt vald.
Eins og áður sagði þá er veðrið Úkraínumönnum hliðhollt þessa dagana. Viktor Rukin, yfirmaður Volyn-herdeildarinnar, sem er staðsett við hvítrússnesku landamærin, sagði að veðrið og ár sem flæða yfir bakka sína hjálpi til við varnir landsins.
Það skemmir ekki fyrir að bjórar eru fjölmargir á þessu svæði og þeir eru lúsiðnir og byggja stíflur í gríð og erg. Serhiy Khominskyi, talsmaður Volyn-herdeildarinnar, sagði í samtali við Reuters að venjulega eyðileggi fólk stíflur bjóranna en það hafi ekki verið gert í vetur vegna stríðsins. Þetta hafi í för með sér að nú sé vatn úti um allt og það sé úkraínska hernum hagstætt.