TASS fréttastofan skýrir frá þessu og segir að Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra, hafi ákveðið að flytja ábyrgðina á stjórn innrásarliðsins upp á við innan hersins vegna þarfar á að „koma á þéttara samstarfi á milli hinna ýmsu deilda hersins“.
TASS segir að Surovikin muni fá nýtt hlutverk sem einn af næstráðendum Gerasimov. Surovikin hefur fengið viðurnefnið „Dómsdagshershöfðinginn“ en hann stóð fyrir grimmdarlegum sprengjuárásum á almenna borgara í borginni Aleppo í Sýrlandi. Hann notaði sömu aðferðir í Úkraínu en þar hafa Rússar gert harðar árásir á innviði landsins, til dæmis orkukerfið.
Flemming Splidsboel, sérfræðingur í rússneskum málefnum há Dansk Institut for International Studier, sagði í samtali við TV2 að nú sé búið að setja ábyrgðina á herðar æðstu manna. „Ég held að þetta sé viðurkenning á að eitthvað sé að. Merki um að nú vilji æðstu leiðtogar ljúka þessu,“ sagði hann.
Hann sagðist ekki eiga von á að Rússar hætti árásum á innviði í Úkraínu þótt Surovikin sé nú ekki lengur við stjórnvölinn.
Gerasimov er öðruvísi manngerð en Surovikin. Hann hefur ekki verið vinsæll meðal hörðustu stuðningsmanna stríðsins í Úkraínu. „Hann er talinn of prúður og fræðilegur. Hann er týpan sem skrifar góðar greinar um hernað í fagtímarit en sem æðsti yfirmaður hefur hann marga möguleika. Ég held að eitthvað mikið muni gerast,“ sagði Splidsboel.
Hann sagði að nú fái Gerasimov tækifæri. Það verði mikið álag á honum að vera yfirmaður alls rússneska heraflans og um leið æðsti stjórnandi hernaðarins í Úkraínu. Ef honum mistekst muni hann einnig verða látinn fjúka.