Surovikin hefur tekist að forðast að fá á sig stimpil sem „misheppnaður“ en þann stimpil hafa margir rússneskir herforingjar og stjórnmálamenn fengið eftir að innrásin hófst.
Hann tók við sem æðsti yfirmaður innrásarhersins í október og þá breyttu Rússar um taktík og byrjuðu að gera harðar árásir á úkraínska innviði, aðallega orkuinnviði. Þetta er svipuð aðferð og Surovikin beitti í Sýrlandi þegar hann stýrði rússneska hernum þar. Þar fékk hann viðurnefnið „Dómsdagshershöfðinginn“ vegna grimmdar hans en hann tók ekkert tillit til almennings og hikaði ekki við að láta gera harðar sprengjuárásir á óbreytta borgara.
Gerasimov hefur verið lýst sem „prúðum“ herforingja sem er með allt þetta fræðilega á hreinu. Hann er náinn samstarfsmaður Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra, sem hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir slaka frammistöðu Rússa á vígvellinum. Hann hefur verið sagður bera stóran hluta af ábyrgðinni á þessum hrakförum.
Mick Ryan, fyrrum yfirmaður í ástralska hernum og sérfræðingur í málefnum Rússlands, sagði í samtali við Radio Free Europe að endurbætur Gerasimov innan rússneska hersins hafi ekki skilað árangri á vígvellinum.
Sérfræðingar eru ekki á einu máli um hvað megi lesa úr breytingunum á yfirstjórn innrásarliðsins. Sumir telja að Pútín hafi verið orðinn þreyttur á taktík Surovikin sem hafi ekki skilað neinum umtalsverðum árangri. Aðrir, þar á meðal sérfræðingar bandarísku hugveitunnar Institute for the Study of War, grunar að Pútín hafi sett Gerasimov í starfið til að geta síðar kennt honum um árangursleysið í stríðinu.
Varnarmálasérfræðingurinn Dara Massicot skrifaði langa færslu um þetta á Twitter þar sem hann segir að óháð því hvað liggi að baki þá hafi Pútín losað sig við „besta herforingjann sinn“ og sett „óhæfan“ í staðinn. Hann segist telja að Surovikin hafi náð að nýta her sinn og búnað betur en forverarnir og hafi komist hjá því að gera hernaðarleg mistök.
Today Shoygu and Gerasimov demoted Surovikin, and put Gerasimov in charge of the operation in Ukraine, demoting their most competent senior commander and replacing him with an incompetent one. This is a story that has it all: infighting, power struggles, jealousy /1 pic.twitter.com/yrhLN6qUwN
— Dara Massicot (@MassDara) January 11, 2023
Surovikin hefur einnig notið mikilla vinsælda meðal liðsmanna Wagnerhópsins og rússneskra herbloggara en þeir eru áberandi í umræðunni um gang stríðsins.
Surovikin er einnig sagður hafa verið hreinskilnari en aðrir þegar kom að því að veita Pútín upplýsingar um gang stríðsins. Upplýsingar hafa komið fram um að Pútín hafi verið öskureiður í upphafi innrásarinnar vegna þess að herforingjar hans leyndu upplýsingum um gang stríðsins fyrir honum.
Massicot segir að undir forystu Shoigu og Gerasimov hafi stórir hlutar af landhernum og flughernum verið gerðir óvirkir. Tugir þúsunda hermanna hafi fallið. Forystuhæfileikar þeirra séu svo gagnslausir að í venjulegum löndum hefðu þeir verið reknir en þeir hafi verið tryggir stuðningsmenn Pútíns og þvi hafi þeir haldið embættum sínum.
Hann segir að skiptin megi rekja til valdabaráttu þar sem Shoigu og Gerasimov hafi haft betur.