Peter Viggo Jakobsen, lektor við danska varnarmálaskólann, sagði í samtali við TV2 að það sé algjörlega nauðsynlegt fyrir Rússa að fá fleiri hermenn ef þeir vilja ná meira landsvæði á sitt vald í Úkraínu.
Hann var spurður út í þetta í ljósi frétta af því mati úkraínsku leyniþjónustunnar að Rússar séu nú að undirbúa herkvaðningu 500.000 manna til viðbótar.
„Ef Rússar vilja halda því sem þeir hafa á sínu valdi og ná meira, þá þurfa þeir miklu fleiri hermenn. Hvort það eru 500.000, skal ég ekki segja til um, en þeir þurfa marga. Þess vegna erum við mjög mörg sem höfum beðið lengi eftir hvort Rússar muni ganga lengra en að kveðja þá 300.000 menn í herinn, sem þeir hafa nú þegar gert,“ sagði hann.
Hann sagði einnig að herkvaðning verði „gríðarlega óvinsæl“ í Rússlandi en á hinn bóginn þá séu Rússar „þekktir fyrir að beita róttækum aðferðum gegn óróa í samfélaginu“ og því geti þeim vel tekist að keyra herkvaðningu í gegn.
Segja gríðarlega umfangsmikla herkvaðningu yfirvofandi í Rússlandi