Það var þann 9. ágúst 1999 sem Jeltsín útnefndi Pútín sem forsætisráðherra til bráðabirgða og við það tilefni sagði hann að hann vildi gjarnan að Pútín yrði forseti þegar fram liðu stundir. En það var þetta stóra vandamál með óvinsældir Pútíns.
TV2 segir að sumar skoðanakannanir hafi sýnt að stuðningur við Jeltsín og Pútín hafi mælst allt niður í 2% í sumum könnunum. Jeltsín var gríðarlega óvinsæll og það varð Pútín einnig af því að hann var maður Pútíns.
Hvernig átti Pútín að geta sigrað í forsetakosningum þegar hann var svona óvinsæll meðal almennings?
Svarið lét ekki á sér standa og það var sannkölluð sprengja og að auki banvæn.
Aðfaranótt 4. september 1999 voru íbúarnir í fimm hæða fjölbýlishúsi í Bujnaksk í fastasvefni þegar öflug bílsprengja sprakk við bygginguna. Hún var svo öflug að húsið hrundi. 64 létu lífið.
Næstu daga voru tvö fjölbýlishús til viðbótar í Moskvu sprengd. Síðan var röðin komin að fjölbýlishúsi í Vogodonsk.
„Hryðjuverkin hafa sagt okkur, rússnesku þjóðinni, stríð á hendur,“ sagði Jeltsín í sjónvarpi.
Í heildina létust um 300 manns í þessum fjórum sprengingum.
David Satter, sérfræðingur í málefnum Rússlands, sagði í samtali við TV2 að þessi morð hafi gert Pútín að forseta. Hann telur að nægar sannanir liggi fyrir um að rússneska leyniþjónustan FSB hafi staðið á bak við sprengingarnar. Í því sambandi er rétt að hafa í huga að Pútín var yfirmaður FSB áður en Jeltsín gerði hann að forsætisráðherra.
Í samtali við TV2 sagði Satter að hann hafi fengið upplýsingar um sprengingarnar beint frá heimildarmönnum innan raða FSB. Einnig hafi verið gerð tilraun til að sprengja fimmta fjölbýlishúsið en það hafi mistekist.
Rússar voru óánægðir með Jeltsín og hræddir eftir sprengjutilræðin. Þá birtist hinn ungi Pútín á sjónarsviðinu, ungi og sterki leiðtoginn.
„Staða Pútíns gjörbreyttist. Hann hafði enga pólitíska reynslu og enga persónutöfra en á einni nóttu breyttist hann úr því að vera handlangari Jeltsíns, sem Rússar hötuðu, í þjóðhetju,“ sagði Satter.
Í sjónvarpsávarpi sagði Pútín að verja þyrfti „Móðurjörðina“ og refsa þeim sem bæru ábyrgð á ódæðisverkunum.
Rykið hafði varla sest á rústir fjölbýlishúsanna þegar Pútín sakaði uppreisnarmenn frá Téténíu um að hafa verið að verki.
Skyndilega var Pútín alls staðar og sór þess að ódæðisverkanna yrði hefnt grimmdarlega. Ekki löngu síðar fóru Pútín og Jeltsín í stríð við Téténíu. Rússar brugðust vel við þessum nýja og sterka leiðtoga sem þeir höfðu eignast.
Í tengslum við stríðið í Úkraínu hefur verið fjallað töluvert um fjölda dauðsfalla rússneskra olígarka og yfirmanna í hernum. Það er engin nýlunda að fólk deyi á voveiflegan hátt í Rússlandi ef það er ósammála Pútín eða gagnrýnir hann.
Í tengslum við sprengingarnar var Pútín meðal annars gagnrýndur af Sergei Jusjenkov, sem lést 2003, og af Anna Politkovskaya og Alexander Litvinenko, sem létust 2006. Þau voru myrt eða létust við dularfullar kringumstæður. Það sama á við um Jurij Sjtsjekotsjikhin, sem lést 2003.
TV2 hefur eftir Vlad Mykhnenko, prófessor við Oxfordháskóla og sérfræðingi í rússneskum málefnum, að hann hafi hugsað mikið um sprengingarnar og ef sú fimmta hefði ekki klikkað hefði hann jafnvel trúað Pútín.
Fimmta sprengjan skiptir einmitt miklu máli. Í fjölbýlishúsi í Rjazan, bæ suðaustan við Moskvu, fundust ósprungnar sprengjur í þremur sykursekkjum. Þær voru í kjallara hússins.
Þær fundust eftir að lögreglunni var tilkynnt um tvo grunsamlega menn sem voru að bera sykursekkina niður í kjallarann. Þessir grunsamlegu menn voru útsendarar FSB.
Útskýring yfirmanns FSB var að sprengjurnar væru ekki virkar. Þetta hefði verið liður í að kanna hvort íbúarnir væru á verði varðandi hryðjuverk.
Novaya Gazeta segir að rannsóknir hafi sýnt að sprengjurnar voru virkar.