Þetta sagði Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna, í samtali við Morgunblaðið. Hann sagði að oft sé sagt frá málum af þessu tagi og því komi það á óvart hversu mikil tregða er til dæmis meðal ráðamanna og almennings við að meðtaka þessar staðreyndir og þar með viðurkenna hvernig samfélagið sé orðið.
Hann nefndi til dæmis Bankastrætismálið sem dæmi um uppgjör glæpagengja og væri það ekki eina dæmið þar sem lögreglan hefur gripið inn í af fullum þunga og varað við þróun mála. Hann sagði hörkuna hafa aukist í þessum hluta samfélagsins og í ljósi þess að meðalaldur almennra lögreglumanna á höfuðborgarsvæðinu er 27 ár og meðalstarfstími þeirra 3 ár hafi hann áhyggjur.
Hann sagðist fagna því að lögreglunni verði nú heimilað að bera rafvopn því það ætti að gera handtökur og yfirbugun auðveldari.