Helga Baldvinsdóttir Bjargardóttir, réttargæslukona 15 ára stúlku sem fyrrverandi stjúpfaðir er grunaður um gróf og margendurtekin kynferðisbrot gegn, segir lögreglu hafa gert alvarleg mistök í rannsókn málsins og gagnrýnir mikinn seinagang í rannsókninni. Þegar bróðir stúlkunnar missti stjórn á sér og réðst á meintan geranda hafi lögregla hins vegar brugðist hratt við og tryggt manninum nálgunarbann gagnvart piltinum og föður hans.
DV fjallaði um þetta mál í vikunni og ræddi við föður stúlkunnar, sem kom ekki fram undir nafni, til að gæta að persónuvernd dóttur sinnar. Gögn frá Barnahúsi, sem DV hefur fengið að líta á, sýna að stúlkan hefur rakið í viðtölum við sálfræðinga Barnahúss, sem nema tugum, kerfisbundnu og margítrekuðu kynferðisofbeldi fyrrverandi stjúpföður síns gegn sér er hún bjó á heimili hans og móður sinnar. Samkvæmt framburði hennar braut hann gegn henni að meðaltali tvisvar í viku yfir fjögurra ára tímabil, frá því hún var 9 til 13 ára.
Sálfræðingar Barnahúss meta framburð stúlkunnar mjög trúverðugan, telja hana hafa verið sjálfri sér samkvæma í gegnum allar frásagnir af þessari reynslu sinni og ekkert ósamræmi að finna í framburði hennar.
Málið var kært til lögreglu í febrúar árið 2020 en stúlkan býr núna hjá föður sínum og unnustu hans ásamt bróður sínum. Barnahús segir stúlkuna og bróður hennar búa við góðar aðstæður hjá föður sínum og unnustu hans. Hinn meinti níðingur og fjölskylda hans búa í sama hverfi og hafa börnin því oft rekist á hann í hverfinu. Upp úr sauð þann 11. október er bróðir stúlkunnar réðst á manninn, eins og áður hefur komið fram.
Eins og kom fram í fyrri frétt DV af málinu gerði kynferðisbrotadeild lögreglunnar þau mistök að afhenda hinum meinta níðingi sína stúlkunnar. Um þetta segir Helga, réttargæslukona hennar:
„Það að lögreglan hafi óvart afhent meintum geranda síma brotaþola hefur valdið ómældu tjóni. Lögreglan bætti vissulega hið fjárhagslega tjón og endurgreiddi símann en miskinn er enn óbættur. Með þessari alvarlegu yfirsjón missir brotaþoli ekki bara umráð yfir myndunum sínum og einkaskilaboðum í hendurnar á manni sem barnið hefur lýst að hafi brotið kynferðislega gegn sér í nokkur hundruð skipti yfir margra ára tímabil. Brotaþoli þarf að búa við þann ótta að maðurinn sem hún segir hafa misnotað sig kynferðislega geti svalað fýsnum sínum yfir myndum af henni sem hann átti aldrei að komast yfir. Við þetta missir brotaþoli jafnframt algjörlega traust sitt á réttarkerfinu og því að lögreglan sé að vinna fyrir hana og eigi að tryggja hennar öryggi.“
Helga bendir á að lögregla hafi ekki sinnt tilmælum föður stúlkunnar um að gerð yrði húsleit á heimili hins meinta geranda:
„Faðir brotaþola óskaði ítrekað eftir því að gerð væri húsleit á heimili hins meinta geranda en lögreglan taldi ekki ástæðu til þess þar sem ekki hafði verið kveikt á símanum. Á fundi með yfirmönnum kynferðisbrotadeildar virtist það vekja undrun þeirra að meintur gerandi hafi kunnað öll lykilorð inn á síma og tölvur barnanna og væri sérfræðingur í gagnaöryggi svo hann ætti að eiga mjög auðvelt með að komast yfir gögn símans án þess að kveikja á honum.“
„Ekki bætir úr skák að í næsta mánuði verða komin tvö ár síðan barnið gaf skýrslu í Barnahúsi og lýsti grófu og ítrekuðu kynferðisofbeldi af hálfu stjúpföður síns. Málið var illa rannsakað, ekki rætt við vitni og ekki kallað eftir skýrslu úr Barnahúsi þegar það er sent til ákæruvaldsins tæpu ári seinna. Þegar málið er búið að liggja þar í hálft ár er það sent aftur í rannsókn út af þessum annmörkum og í millitíðinni var sími brotaþola afhentur meintum geranda fyrir slysni,“ segir Helga ennfremur. Hún bendir á að hröð vinnubrögð lögreglu við að úrskurða manninum nálgunarbann gagnvart bróður stúlkunnar og föður hans séu ekki samkvæmt venju:
„Bróðir hennar kærði sama mann líka fyrir líkamlegt ofbeldi í sinn garð en vegna þess að hann átti í erfiðleikum með að muna nákvæmlega atvikin var rannsókn málsins hætt. Þau systkinin eru sífellt að mæta meintum geranda úti á götu en þegar bróðir brotaþola missir stjórn á skapi sínu í eitt slíkt skipti og ræðst á meintan geranda er lögreglan búin að tryggja honum nálgunarbann gegn bæði bróður og föður brotaþola á innan við tveimur mánuðum. Þetta er ekki í samræmi við vinnubrögð lögreglu þegar konur óska t.d. eftir nálgunarbanni gagnvart mönnum sem hafa beitt þær ofbeldi.“
Helga segir að vinnubrögð lögreglu í þessu máli séu ekki til þess fallin að styrkja trú brotaþola á réttarkerfinu:
„Svo ég verð að viðurkenna að vinnubrögð lögreglu eru ekki til þess fallin að styrkja trú brotaþola á réttarkerfinu og þessi seinagangur á rannsókn máls mun að öllum líkindum leiða til þess að meintur gerandi fái vægari dóm verði hann dæmdur. En hver bætir allan þann miska sem brotaþolar og aðstandendur verða fyrir við að bíða mánuðum og árum saman eftir niðurstöðu í málinu? Það er enginn.“