Þetta segir yfirlautinant Sergei Sevryukov í myndbandi sem rússneska varnarmálaráðuneytið hefur birt. Það sem hann er að tala um er árás Úkraínumanna á skólabyggingu í bænum Makiivka þegar nýja árið var að ganga í garð. AFP skýrir frá þessu.
Úkraínumenn segja að allt að 400 rússneskir hermenn hafi fallið í árásinni og 300 hafi særst. Rússar gefa upp aðra tölu og segja að 89 hafi fallið. Hins vegar hefur það vakið athygli að rússneskir herbloggarar, sem margir hverjir hafa góð sambönd innan rússneska hersins, segja margir að manntjónið sé talið í hundruðum, ekki tugum.
Flestir hinna föllnum voru menn sem voru kvaddir í herinn í lok síðasta árs og voru nýkomnir til Úkraínu. Skólinn var notaður sem bækistöð fyrir þá vegna kulda á svæðinu.
Úkraínumenn skutu HIMARS-flugskeytum á skólann og jöfnuðu hann við jörðu. Það dró ekki úr sprengingunum að Rússar voru með skotfærageymslu í skólanum.
Í myndbandinu segir Sevryukov að gripið hafi verið til ráðstafana til að koma í veg fyrir að atburður af þessu tagi endurtaki sig og að þeim sem bera ábyrgð á að svona fór verði refsað.