Samkvæmt upplýsingum, sem Úkraínumenn hafa aflað sér, þá verður sprengjuregn, á borð við það sem hefur dunið á Kyiv að undanförnu, það sem bíður Úkraínumanna daglega.
Þegar árið var rétt hafið sendu Rússar sjálfsvígsdróna af stað, einhverskonar nýárskveðju til Úkraínu. Þetta var væntanlega bara forsmekkurinn af því sem koma skal að mati Úkraínumanna.
Úkraínska leyniþjónustan GUR telur að Rússar muni nú breyta um taktík og einbeita sér að árásum á Kyiv og austurhluta landsins. Dagbladet skýrir frá þessu.
Ástæðan fyrir breyttri taktík er auðvitað að hluta slæleg frammistaða Rússa á vígvellinum ein einnig spilar þarna inn í að vopnageymslur þeirra eru nánast tómar. Vegna þeirra hörðu refsiaðgerða sem þeir eru beittir af Vesturlöndum eiga þeir í erfiðleikum með að fylla á vopnageymslur sínar.
„Við sjáum áhrif efnahagslegra refsiaðgerða gegn Rússlandi. Þeir reyna að komast hjá þeim og flytja inn íhluti en það er ekki svo einfalt,“ sagði talsmaður GUR í tilkynningu.
Þetta þýðir að Pútín notar nú mikið af írönskum sjálfsvígsdrónum og gömlum flugskeytum gegn Úkraínu. En ný flugskeyti eru enn framleidd í Rússlandi að sögn talsmanns GUR sem sagði að brot úr flugskeytum, sem voru framleidd á síðasta ársfjórðungi 2022, hafi fundist. Þau séu send til hersveitanna um leið og þau koma úr framleiðslu.