„Á sunnudagsmorgun voru tveir teknir af lífi, sem voru dæmdir fyrir að starfa með hersetuliðinu, og þrír til viðbótar sem voru dæmdir fyrir glæpi,“ segir í fréttatilkynningu frá Hamas.
Þremenningarnir, sem voru dæmdir fyrir glæpi, eru sagðir hafa framið morð.
Hinir tveir, annar á fimmtugsaldri og hinn á sextugsaldri, eru sagðir hafa starfað með Ísraelsmönnum. Sá eldri er sagður hafa veitt Ísraelsmönnum upplýsingar um meðlimi Hamas og staðsetningu eldflaugaskotpalla. Þetta á hann að hafa gert 1991. Hinn er sagður hafa veitt ísraelsku leyniþjónustunni upplýsingar sem leiddur til þess að íbúar á Gasa dóu „píslarvættisdauða“ 2001. Mennirnir voru báðir meðlimir palestínskra öryggissveita. Þeir voru skotnir en hinir þrír voru hengdir.
Hamas eru skilgreind sem hryðjuverkasamtök af Bandaríkjunum, ESB og Ísrael.