Dmitry Peskov, talsmaður stjórnarinnar í Kreml, sagði í gær á rússnesku sjónvarpsstöðinni Rossiya-1 að „öllum átökum ljúki með því að það dregur úr þeim“ og að „allar krísur endi við samningaborðið“.
„Það mun einnig gerast að þessu sinni. Það er ólíklegt að það gerist í nánustu framtíð, líklega miklu síðar, en það mun gerast,“ sagði hann að sögn Tass.
Hann sagði að samningaviðræður megi ekki „skaða rússneska hagsmuni“ og að samningaviðræðurnar muni snúast um hvernig kröfum Rússa verði mætt.
Úkraínumenn hafa ekki svarað þessum ummælum hans en síðustu daga hafa úkraínskar hersveitir sótt fram gegn rússneskum hersveitum í Kherson og hafa náð nokkrum árangri.