fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Þegar ég datt í það með föður hættulegasta manns internetsins

Björn Þorfinnsson
Sunnudaginn 4. september 2022 07:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það kom svolítið á mig þegar ég las fréttir erlendra og íslenskra miðla um að samfélagsmiðlastjarnan og milljarðamæringurinn Andrew Tate væri sagður „hættulegasti maður internetsins.“

Hann er geysivinsæll á helstu samfélagsmiðlum, sérstaklega hjá ungum drengjum, en á veitunum úðar hann út ógeðfelldum skoðunum sínum sem einkennast af kvenhatri og fordómum. Stærstu samfélagsmiðlaveiturnar hafa ein af annarri lokað á Tate og því á eftir að koma í ljós í hvaða myrku afkimum internetsins hann mun ná að spúa eitri sínu næst. Ég hef blessunarlega aldrei hitt Andrew Tate en einhvern veginn finnst mér ég eins og ég þekki hann lítillega. Þetta er sagan af því þegar ég datt í það með föður „hættulegasta manns internetsins.“

Sjá einnig: Hver er Andrew Tate? Sagður vera hættulegasti maður internetsins

Rokkstjarna í bandarísku skáklífi

Ég hitti Emory Tate, föður Andrew, þegar ég tók þátt í að skipuleggja alþjóðlegt skákmót, Reykjavik International, árið 2007. Hann hafði samband og vildi endilega heimsækja Ísland og við ákváðum að bjóða honum yfir hafið til að taka þátt enda hafði ég oft lesið um kappann sem var hálfgerð rokkstjarna í bandaríska skáksamfélaginu. Hann var fluggáfaður vélbyssukjaftur, talaði fjölda tungumála, þar á meðal rússnesku, og hafði átt farsælan feril í bandaríska flughernum. Hann þótti tefla einstaklega skemmtilega og hafði lag á því að valta yfir sterka stórmeistara þó inn á milli gerðust slys gegn veikari skákmönnunum.

Hann virtist líka geisla af sjálfstrausti, sagðist aldrei æfa sig eða stúdera skák heldur settist bara niður og léti vaða. Leikurinn flókni væri honum í blóð borinn og hann var gjarn á að benda á að ef hann hefði haft þjálfarana og tækifærin til að helga sig skáklistinni þá væri hann einn af þeim allra bestu í heiminum. Ef maður hefði getað tappað sjálfstrausti Emory Tate á flöskur og selt þá væri maður vellauðugur.

Drukkum eins og Rússarnir

Emory hafði heyrt lofræður um íslenskt næturlíf og því varð það úr, eitt föstudagskvöld á meðan á mótinu stóð, að ég heimsótti hann á hótelið hans í miðbænum til þess að sýna honum dýrðina. Hann bauð mér inn, reif síðan upp 1 lítra vodkaflösku og skenkti í tvö glös. Ég var byrjaður að skima um herbergið eftir einhverskonar íblöndun þegar Emory lyfti upp glasi og sagði: „We drink it like the Russians“.

Emory Tate var fæddur árið 1958 og hafði greinilega orðið fyrir þeim áhrifum af Kalda stríðinu að Rússar væru upphaf og endir alls ills. Skáklistin var því að mörgu leyti nokkuð óheppileg íþrótt fyrir kappann enda hafa Rússar iðulega borið höfuð og herðar yfir aðrar þjóðir á þeim vettvangi og á alþjóðlegum mótum er venjulega allt krökkt af ógnarsterkum Rússum. Hann sá því óvini á hverju horni á skákmótum.

Rússarnir virtust vera allir undir sama hatti hjá Emory. Það voru „þeir“ gegn honum og hann byrjaði kvöldið á því að segja nokkrar hetjusögur af því þegar hann valtaði yfir nokkra úr svartasta Sovétinu.

4-2 sigur en tapaði samt

Emory var, þrátt fyrir vissa hæfileika, fjarri því að vera í einhverjum heimsklassa. Hann var alþjóðlegur meistari með um 2.400 stig og því vorum við í raun svipaðir að styrkleika. Það var þó ljóst á öllu hans látbragði að hann áleit sig mörgum þrepum ofar. Og þess vegna skoraði ég á hann í einvígi þarna í hótelherberginu.

Hann lét tilleiðast með semingi og við drógum inn í miðju herbergisins skrifborð sem hafði verið úti í horni og hófum leika með borði og klukku sem Emory hafði með sér í farangri.

Hann tefldi fyrstu skákina með hálfum hug, samkjaftaði allan tímann og hraunaði yfir hvern einasta leik og mig sjálfan þess á milli. Aldrei hefur neinn kallað mig jafn hlýlega tikarson og Emory Tate.

Honum brá þó hressilega þegar ég valtaði yfir hann í fyrstu skákina og skvaldrið minnkaði jafnt og þétt í næstu skákum. Þegar ég var kominn yfir 3-0 var Emory alveg þagnaður . Fjórða skákin var svo tefld í þrúgandi þögn og að endingu hafði ég einnig sigur í henni með mikilli heppni sem varð til þess að Emory hrópaði upp fyrir sig og kynnti mig fyrir úrvali af bandarískum blótsyrðum.

Staðan var 4-0 og nú var fokið í Bandaríkjamanninn sem raðaði upp í hvelli og vildi aðra skák. Hann pakkaði mér saman í henni og þegar ég gafst upp, saddur lífdaga, raðaði hann í hvelli upp aftur og setti klukkuna í gang. Næsta skák var í járnum allan tímann en að lokum gerði ég klaufaleg mistök og tapaði henni líka.

Þá var sem að það létti yfir Emory. Hann hallaði sér aftur í stólnum, skenkti okkur aftur í vodka í glas og spurði hvort að þetta væri ekki komið gott. Greinilega fullviss um að hann væri búinn að sanna fyrir mér að hann væri sterkari skákmaðurinn. Staðan var 4-2 fyrir mér en einhvern veginn var ég búinn að tapa einvíginu.

Stoltur af Andrew

Þegar skuggalega lítið var eftir í flöskunni fór Emory að tala um börnin sín og sérstaklega bardagakappann Andrew.  Hann hafði mikið álit á syni sínum, sagði að hann væri snillingur – ekki síst í viðskiptum auk þess sem framtíðin væri björt í bardagabúrinu. Stoltið leyndi sér ekki og að einhverju leyti hefur þetta ræst. Andrew er vellauðugur viðskiptamaður en helsjúkar skoðanir hans hafa gert hann að einum alræmdasta manni samtímans.

Emory eignaðist þrjú börn með breskri eiginkonu sinni, þau Andrew, Tristan og Janine, en eftir að þau skildu þá fluttist hún með börnin til Bretlandseyja. Sennilega var það vodkað sem lét Emory byrja að tala um fjölskyldu sína og börn en ekki síður væntingar hans og vonbrigði í lífinu, og þá ekki síst hvað það var lítið upp úr því að hafa að tefla.

Að endingu fannst mér nóg komið af bölmóð og lagði til að við færum út á einhverja skemmtistaði og það féllst kallinn á. Ég veit ekki hvað við heimsóttum marga staði en ég held að Emory, þótt þögull væri, hafi að minnsta kosti skemmt sér ágætlega og skoðanaferðin um íslenskt næturlíf hafi staðist væntingar. Síðasti staðurinn sem við skröltum út af var Ellefan heitin. Það var orðið þyngra yfir Emory þegar að þarna var komið við sögu og þegar við vorum komnir út undir bert loft fór hann að barma sér yfir ýmsum atriðum lífs síns.

Tate-fjölskyldan. Emory lengst til hægri og heldur um öxl Andrew

Ertu einn af þeim?

Síðan sneri hann sér að Rússunum og fullyrti, með nokkrum tilþrifum, að sameiginlegur kunningi okkar, ungverskur gyðingur með tengsl við Rússland, hefði reynt að drepa sig þegar hann tefldi í móti þar ytra. Ég svaraði á þá leið að þetta gæti ekki verið en þá snöggreiddist Emory, ýtti mér upp að nærliggjandi vegg þannig að ég dinglaði í loftinu í nokkrar sekúndur. „Are you one of them?“ öskraði hann á mig með tryllingsglampa í augunum. Áður en ég gat stunið upp „nyet“ sleppti hann mér, baðst hálfskelfdur afsökunar og settist síðan niður á nærliggjandi þrep og horfði í gaupnir sér.

Þetta var hin vandræðalegasta staða og það eina sem mér datt í hug voru orðin sem brætt hafa margan mölvaðan útlendingin um miðja nótt í Reykjavík. „Would you like to try some Hlölli maybe?“ spurði ég og klappaði honum á bakið. Nokkrum andartökum seinna var allt orðið gott aftur.

Það var falleg sjón að sjá Emory vin minn skjögra upp heim á leið með flaggskip íslenskrar matarmenningar í bréfpoka.

Fékk hjartaáfall á skákmóti

Emory hafði fram af þessu staðið sig vel á mótinu en eftir þetta kvöld fór allt að ganga á afturfótunum. Hann tapaði hverri skákinni á fætur annarri og yfirgaf Ísland með skottið á milli lappanna. Við töluðumst kurteisislega við á skákstað og kvöddumst með virktum en ræddum aldrei þetta skrítna kvöld.

Ég hitti hvorki né heyrði aftur í Emory Tate en átta árum síðar, árið 2015, féll hann skyndilega frá, aðeins 56 ára gamall, en hann fékk hjartaáfall á miðju skákmóti í San Jose í Kaliforníuríki.

Kvöldið mitt með föður hættulegasta manns internetsins verður alltaf eftirminnilegt en ég er feginn að Emory Tate þurfti ekki að upplifa hvurslags ómenni sonur hans Andrew er orðinn.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!
EyjanFastir pennar
18.10.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir
EyjanFastir pennar
17.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Besta ákvörðunin

Þorsteinn Pálsson skrifar: Besta ákvörðunin
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim
EyjanFastir pennar
10.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fyrstu framvirku stjórnarslitin

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fyrstu framvirku stjórnarslitin