fbpx
Miðvikudagur 15.janúar 2025
Fréttir

Enn berast frásagnir af heiftarlegri magakveisu á Bitácora-hótelinu – „Saurslóð á klósettið og ælandi fólk í matsal“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 30. september 2022 13:57

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við erum nokkuð mörg hérna saman, ein úr hópnum veiktist hastarlega. Við höfum spurnir af fimm manna íslenskri fjölskyldu sem steinlá meira og minna öll. Fólk í okkar hópi hefur orðið vitni að saurslóð af klósetti og ælandi fólki í matsal,“ segir íslenskur maður sem nú er staddur á Bitácora-hótelinu á Amerísku ströndinni á Tenerife. Maðurinn vill ekki láta nafn síns getið vegna meintra hótana starfsfólks hótelsins um lögsóknir gegn þeim sem tala um ástandið.

Maðurinn er í tíu manna hópi sem dvelst á hótelinu en einn aðili úr hópnum hefur veikst hastarlega. „Heilbrigðismenntaður einstaklingur á staðnum með mikla reynslu telur ljóst að afneitun hótelsins valdi því að hér grasseri einhver padda sem ekki náist að kveða niður,“ segir maðurinn ennfremur.

Maðurinn segir að honum ofbjóði framganga stjórnanda hótelsins gagnvart þeim sem reyna að vekja athygli á ástandinu og framkoma starfsfólksins almennt.

„Mér ofbýður framganga hótelstarfsmanna í garð þess aðila sem hefur reynt að vekja athygli þeirra á þessu. Ég vil vísvitandi hafa þetta frekar óljóst því þegar farið er að hóta lögsókn þá stendur manni ekki á sama.“

Beðinn um að útlista nánar þessar hótanir, segir hann: „Sagt var að viðkomandi ætti að hætta að dreifa því að hér væri einhver sýking í gangi, sem gerðist aldrei, það var aldrei nein dreifing, viðkomandi ræddi bara við hótelstarfsfólk og bað um úrbætur, bað um einhver viðbrögð. En það hefur bara verið hörð afneitun þar til einhver manager sat fyrir viðkomandi og bara hótaði lögsókn.“

Í sumar sem leið voru háværar raddir um útbreidda magakveisu á hótelinu. Þann 28. júní birti DV frétt um málið, þar sem segir:

„Hildur Björg Ragnarsdóttir var hluti af sjö manna fjölskylduhópi sem hélt til á Bitácora dagana 7. til 15. júní. Hildur og hennar fólk flugu til eyjarinnar fögru beint frá Akureyri. Því miður fór megnið af ferðinni í glímu við veikindin því eitt barna Hildar veiktist eftir tvo daga en maður hennar og annað barn skömmu síðar. Auk þeirra voru tveir eldri ættingjar með í för en af þessum sjö manna hópi veiktust semsagt þrjú en fjögur sluppu.

Hildur segist hafa orðið mikið vör við veikindin á hótelinu. „Í matsalnum var strákur sem gubbaði á bak við okkur, það var gubbað í sundlaugina og henni lokað í kjölfarið, það var líka gubbað hjá lyftunum. Margir Íslendingar á hótelinu voru lasnir þá daga sem við vorum þarna, þar á meðal var ein lítil stúlka sem var veik nánast alla ferðina, var með háan hita en gubbaði ekki,“ segir Hildur í viðtali við DV.

Pestin lýsir sér í uppköstum, niðurgangi og hita en það er einstaklingsbundið hvernig þessi einkenni leggjast á fólk. „Ég slapp alveg og dóttir mín líka en við vorum við það að leita til læknis því okkar yngsta barn, sem er bara tveggja ára, fékk mikinn hita í tvo daga eftir að hafa gubbað. Hann var rosalega slappur en hresstist svo við allt í einu.““

Um svipað leyti var vakin athygli á ástandinu á Tripadvisor. Hótelið brást þá við og neitaði því með öllu að um nóvóveiru-sýkingu væri að ræða og fullyrti að hótelið uppfyllti strangar kröfur um sóttvarnir og hreinlæti:

„Vegna upplýsinga sem hafa birst á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum á Íslandi undanfarna daga og fjalla um nóróveirufaraldur á hótelinu okkar, viljum við upplýsa alla viðskiptavini okkar og tengiliði um að við höfum ekki fengið staðfestingu á því að um faraldur sé að ræða í okkar húsnæði. Það að ekki er um að ræða alvarleg tilfelli og að allar reglur um heilbrigði og hreinlæti eru uppfylltar, er staðfest af BIOLAB greiningarfyrirtækinu, og deilum síðustu tveimur skýrslum frá þeim dagsettum 7. og 27. júní. Ennfremur getur sjálfstæð læknisþjónustan sem hefur meðhöndlað nokkra viðskiptavini ekki staðfest að um nóróveiru sé að ræða hjá sjúklingunum sem voru meðhöndlaðir í júní og hefur hún upplýst að sjúklingarnir hafi verið með væg einkenni magaóþæginda sem hvorki hafi kallað á innlögn né aðra læknisheimsókn.

Þrátt fyrir þessa staðfestingu hafa reglur um sótthreinsun og hreinlæti á hótelinu verið hertar til að auka öryggi gesta okkar enn frekar.“

Maðurinn segir einnig að starfsfólk hafi krafið þá sem kvarta um læknisvottorð en hann bendir á að fæstir fari til læknis þó að þeir séu með magakveisu. „Þetta er komið í þennan farveg, starfsfólkið spyr hvort gestir séu með læknisvottorð, og ef maður framvísar því ekki segja þau að maður geti ekkert sannað.“

Kannast ekki við vandamálið

DV hafði samband við ónefndan starfsmann í móttöku hótelsins. Aðspurður um hvort einhver fulltrúi fyrirtækisins gæti rætt við fjölmiðla sagðist hann geta gert það sjálfur. Hann kannaðist ekki við neinn magakveisufaraldur á hótelinu en sagði að einn gestur hafði kvartað í dag undan magakveisu. „Hann var mjög fínn,“ sagði maðurinn á ensku og var erfitt að átta sig á hvort hann ætti þar við framkomu gestsins eða heilsu viðkomandi. Starfsmaðurinn kannaðist við að eitthvað hefði verið rætt um magaveikivandamál í fréttamiðli í sumar en ekkert að undanförnu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Geirdís missti heimili sitt í eldsvoða – „Ég er bara pokakerling á milli vina og ættingja“

Geirdís missti heimili sitt í eldsvoða – „Ég er bara pokakerling á milli vina og ættingja“
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Aðstandanda fyrrum fanga misboðið vegna deilipósts

Aðstandanda fyrrum fanga misboðið vegna deilipósts
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Formaður Ljósmæðrafélagsins hugsi eftir grínatriði Steinda, Sögu og Sigursteins

Formaður Ljósmæðrafélagsins hugsi eftir grínatriði Steinda, Sögu og Sigursteins
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Allir þingmenn á tvöföldum launum um síðustu mánaðamót – Einn ætlar að vera í aukavinnu

Allir þingmenn á tvöföldum launum um síðustu mánaðamót – Einn ætlar að vera í aukavinnu
Fréttir
Í gær

Gróflega misboðið eftir Morgunútvarpið – „Hvernig getur RÚV leyft sér að bjóða upp á þessa þvælu, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð?“ 

Gróflega misboðið eftir Morgunútvarpið – „Hvernig getur RÚV leyft sér að bjóða upp á þessa þvælu, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð?“ 
Fréttir
Í gær

Íslendingar sólgnir í ódýrar vörur frá Kína – Eyrnalokkar innihéldu þúsundfalt leyfilegt magn af krabbameinsvaldandi efni

Íslendingar sólgnir í ódýrar vörur frá Kína – Eyrnalokkar innihéldu þúsundfalt leyfilegt magn af krabbameinsvaldandi efni