fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Skemmdarverkin á gasleiðslunum geta opnað nýja víglínu í deilum Vesturlanda og Pútíns – Teygir sig til Íslands

Kristján Kristjánsson
Fimmtudaginn 29. september 2022 05:56

Gasið streymdi upp til yfirborðsins frá Nord Stream gasleiðslunni. Mynd:Danski flugherinn/EPA

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Skemmdarverkin á Nord Stream 1 og 2 gasleiðslunum í Eystrasalti geta opnað nýja víglínu í deilum Vesturlanda og Vladímír Pútíns, Rússlandsforseta. Hvað gerist ef skemmdarverk verða unnin á gasleiðslum frá Noregi til annarra Evrópuríkja? Þetta er eitthvað sem margir velta fyrir sér þessa dagana og bæði NATO og ESB eru á tánum vegna málsins og ræða hugsanlegar aðgerðir í kjölfar skemmdarverkanna sem afhjúpuðu hversu viðkvæmir margir innviðir í Evrópu eru.

Evrópa glímir við orkukreppu og skemmdarverkin á gasleiðslunum auka enn á þá spennu sem er á milli Rússlands annars vegar og hins vegar nær allra annarra Evrópuríkja vegna innrásar Rússa í Úkraínu.

Á Vesturlöndum grunar marga að Rússar hafi staðið á bak við skemmdarverkin á gasleiðslunum og ef þær grunsemdir styrkjast eða verða jafnvel sannaðar getur það neytt Vesturlönd til að taka ný skref í deilunum við Rússland og efla heri sína enn frekar til að þeir geti verndað orkuflutningsleiðslur og samskiptaleiðslur, neðansjávar, betur.

Rússar hafa vísað því á bug að þeir eigi hlut að máli hvað varðar skemmdarverkin og fóru í gær fram á neyðarfund hjá öryggisráði SÞ vegna málsins. Hann verður á morgun. Mörgum finnst þó erfitt að leggja trúnað á það sem Rússar segja enda muna eflaust margir eftir því að allt fram á síðasta dag þvertók Pútín fyrir að til stæði að ráðast inn í Úkraínu þrátt fyrir að Rússar hefðu stefnt á annað hundrað þúsund hermönnum að landamærum ríkjanna.

Berskjölduð Evrópuríki

Skemmdarverkin afhjúpa hversu berskjölduð Evrópuríki eru hvað varðar orkuflutninga og samskiptalínur á borð við netkapla sem liggja neðansjávar.

Gasverð hækkaði strax eftir að fregnir bárust af skemmdarverkunum og sérfræðingar segja að ef svipuð árás verði gerð á gasleiðslur frá Noregi eða Alsír standi Evrópa frammi fyrir alvarlegum vanda.

Skemmdarverkin koma á tíma þar sem miklar umræður eru innan ESB um hvernig sé hægt að koma í veg fyrir að Evrópubúar skjálfi úr kulda heima hjá sér í vetur og hvernig sé hægt að koma í veg fyrir að loka þurfi fyrirtækjum vegna orkuskorts.

En áður en NATO eða ESB grípa til aðgerða verður að rannsaka skemmdarverkin vel.

Eins og áður sagði telja margir að Rússar hafi verið að verki enda ekki á allra færi að fremja skemmdarverk af þessu tagi. Það þurfti mikið magn sprengiefna til að sprengja göt á leiðslurnar sem eru á 70-90 metra dýpi, steyptar inn í hólka, hefur verið talað um 100 kg af sprengiefni á hverjum stað. Zbigniew Rau, utanríkisráðherra Póllands, sagði að skemmdarverkin geti tengst svokölluðum blendningshernaði Rússa gegn NATO og geti verið tilraun þeirra til að ógna löndunum við Eystrasalt, sem eru öll að Rússlandi undanskildu, aðilar að NATO eða á leið inn í varnarbandalagið.

Der Spiegel sagði í vikunni að bandaríska leyniþjónustan CIA hafi fyrir nokkrum vikum síðan varað þýsk yfirvöld við „hugsanlegri árás á gasleiðslur í Eystrasalti“.

Þýsk yfirvöld hafa ekki viljað tjá sig um þetta en fyrir nokkrum dögum sagði háttsettur þýskur flotaforingi í samtali við Die Welt að geta Rússa til að athafna sig neðansjávar ógni „mikilvægum innviðum eins og rörum og samskiptaleiðslum“ í Eystrasalti.

New York Times segir að í júní hafi CIA varað nokkur Evrópuríki, þar á meðal Þýskaland, við hugsanlegri árás á Nord Stream 1 og 2.

Í kjölfar skemmdarverkanna hefur verið gripið til margvíslegra öryggisráðstafana í Svíþjóð, Danmörku og víðar. Norðmenn hafa einnig aukið viðbúnað sinn við ýmsa innviði. Áður en skemmdarverkin voru unnin höfðu norsk yfirvöld varað við flugi óþekktra dróna nærri borpöllum í Norðursjó. Í sumar bárust fréttir af ferðum rússneskra kafbáta við strendur Noregs.

Fyrir ári síðan birtist rússneska skipið „Yantar“ í Ermarsundi. Skipið getur flutt litla kafbáta sem geta unnið skemmdarverk á neðansjávarleiðslum að sögn bandaríska yfirvalda. Stuttu áður hafði skipið legið við akkeri ofan við mikilvægar Internetleiðslur í Írlandshafi.

Ísland er heldur ekki undanskilið áhuga Rússa enda aðildarríki að NATO og þátttakandi í aðgerðum Evrópuríkja gegn Rússum vegna innrásarinnar í Úkraínu.

„Það hefur áður verið nokkur traffík ekki langt frá leiðslunum okkar. Og þegar ég segi áður, þá meina ég fyrir ekki svo mörgum árum,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, nýlega í samtali við Jótlandspóstinn.

Eins og kunnugt er þá sinnir bandaríski flotinn eftirliti hér við land með umferð kafbáta og notar til þess P-8 flugvélar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Hafberg í Lambhaga lætur samkeppnisaðila sinn heyra það

Hafberg í Lambhaga lætur samkeppnisaðila sinn heyra það
Fréttir
Í gær

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“
Fréttir
Í gær

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá