Tugir þúsunda Rússa hafa streymt úr landi eftir að Vladímír Pútín, forseti, tilkynnti um herkvaðningu 300.000 manna í síðustu viku.
Mikill straumur hefur verið til Kasakstan og Georgíu en einnig hafa Rússar streymt til Finnlands og Eistlands og annarra landa sem þeir geta komist til.
Í tilkynningu frá rússneska varnarmálaráðuneytinu segir að það hafi ekki sent neina beiðni til yfirvalda í Kasakstan, Georgíu eða öðrum löndum um að rússneskir ríkisborgarar verði neyddir til að snúa heim og hafi ekki í hyggju að gera það.