Netmiðillinn Meduza skýrir frá þessu og vitnar í ónafngreindan heimildarmann innan stjórnkerfisins. Er viðkomandi sagður telja að 28. september verði líklegast fyrir valinu. Annar heimildarmaður sagðist telja að landamærunum verði lokað um leið og svokölluðum „atkvæðagreiðslum“ á herteknu svæðunum í Úkraínu er lokið en þeim á að ljúka á morgun. Niðurstaða þeirra er ráðin þar sem ekki er um frjálsar kosningar að ræða, heldur sviðsettar kosningar leppa rússnesku ríkisstjórnarinnar.
Pavel Tsjikov, rússneskur mannréttindalögfræðingur, segir að skjöl sýni að rússneskir karlmenn, sem reyna að komast frá Rússlandi til Kasakstan, séu stöðvaðir á landamærunum og meinað að yfirgefa landið. Segir hann að herinn hafi fyrirskipað þetta.