Þann 25. apríl árið 2019 lést Magnús Magnússon í New York-fylki í Bandaríkjunum eftir alvarlegt heilablóðfall, 78 ára að aldri. Magnús, sem var búsettur vestanhafs tæplega helming ævi sinnar, átti stóra fjölskyldu hérlendis, þar á meðal þrjár dætur, en kaus að búa vestanhafs þrátt fyrir glímu við erfið veikindi og heilabilun undir það síðasta.
Átta mánuðum fyrir andlát sitt réð Magnús úkraínska konu til þess að annast sig og naut til þess aðstoðar kunningja síns ytra. Sú úkraínska, sem heitir Víra, var ólöglegur innflytjandi en fékk að búa á heimili Magnúsar og var með honum öllum stundum. Dóttir Magnúsar, Sylvía, segir að fjölskylda hans hafi til að byrja með verið ánægð með að einhver hafi fengist til starfsins en áttað sig of seint á því að aðstæður hans versnuðu í raun til muna. Hann hafi ekki fengið umönnun við hæfi né hafi verið séð til þess að hann fengi nauðsynleg lyf.
Strax við andlát Magnúsar kom það í ljós að hann hafði nýlega breytt erfðaskrá sinni, varðandi eignir sínar í Bandaríkjunum, á þann veg að Víra erfði allt eftir hann, húsið, sem var rúmlega 100 milljón króna virði, sem og verðmætt innbúið en Magnús átti mikið safn málverka og annarra muna. Þar á meðal málverk eftir sjálfan Salvador Dali. Erfðaskránni hafði verið breytt 49 dögum eftir að Víra og Magnús hittust í fyrsta sinn.
Sannfærð um að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað
Frá andláti Magnúsar hafa dætur hans staðið í málarekstri ytra sem og fylgst með skiptum á búi Magnúsar hér heima en hérlendis átti hann einnig ýmsar eignir. Á báðum vígstöðvum hefur vanhæfni og svik lögmanna reynst fjölskyldunni dýrkeypt. Bróðurdóttir þeirra, Kolbrún Garðarsdóttir lögmaður, var gerð að skiptastjóra búsins (e. Executor) úti í Bandaríkjunum og réð hún bandarískan lögmann til þess að sjá um verkefnið ytra.
Heima fyrir misskildi Kolbrún hins vegar hlutverk sitt, hegðaði sér eins og skiptastjóri búsins þrátt fyrir að gegna aðeins stöðu umboðsmanns og rukkaði háar fjárhæðir fyrir þjónustu sína. Þá rukkaði hún íslenska búið fyrir ýmislegt sem við kom dánarbúinu í Bandaríkjunum. Úr urðu miklar deilur sem enduðu með því að Kolbrún var áminnt af úrskurðarnefnd lögmanna og þurfti að endurgreiða tæplega 3 milljónir af þóknuninni sem hún hafði innheimt.
„Þetta er búið að reyna alveg gríðarlega á undanfarin ár að standa í þessari baráttu í Bandaríkjunum og ekki síður hér heima. Ég er sjálf sannfærð um að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað úti og það er ógeðslega tilfinning að vera varnarlaus gagnvart þín og sjá hugsanlega gerendur komast upp með ráðabruggið. Að sama skapi var það hryllileg sárt að upplifa þessa framkomu frænku minnar og þurfa að standa í þessari baráttu á báðum vígstöðvum,“ segir Sylvía.
Ættleidd frá Þýskalandi
Magnús og eiginkona hans, Sigrún María Sigurðardóttir, ættleiddu Sylvíu frá Þýskalandi þegar hún var þriggja mánaða gömul. „Móðir mín gat ekki átt börn og því leituðu þau eftir því að ættleiða barn. Ég var mjög náin pabba og sögðu sumir að við værum mjög lík í skapi og háttalagi þó að við værum ekki blóðskyld,“ segir hún.
Þegar Sylvía var tveggja ára gömul slitnaði upp úr hjónabandi þeirra og átti Magnús eftir að eignast tvær dætur að auki.
Magnús starfaði sem skipstjóri um tíma auk þess að reka Olís í Njarðvík. Hann var stjórnarformaður og síðar forstjóri Hafskips árin 1973 – 1979. Viðskilnaður hans við fyrirtækið var stormasamur í meira lagi. Magnús var sakaður um fjárdrátt en málinu lauk með sátt og hann hætti í kjölfarið hjá Hafskip.
„Eftir Hafskipsárin fékk hann eiginlega upp í kok á Íslandi og fluttist til Bandaríkjanna. Honum leið mjög vel þar og starfaði sem verktaki alveg þangað til að hann settist í helgan stein,“ segir Sylvía.
Hann bjó sér fallegt heimili í Belle Terre-þorpinu á Long Island í New York fylki auk þess sem hann átti nokkrar fasteignir á Íslandi, eins og áður segir. „Hann heimsótti alltaf Ísland og fjölskylduna 1-2 ári og við vorum alltaf í góðu sambandi,“ segir Sylvía, sem sjálf bjó í meira en áratug á Nýja-Sjálandi.
Vildi snúa aftur til Bandaríkjanna
Árið 2016 fór heilsa Magnúsar að hraka og í mars 2018 dundi ógæfan yfir þegar hann fékk heilablóðfall úti í Bandaríkjunum. Þá fór Sylvía út ásamt þáverandi manni sínum og kom faðir hennar með þeim til Íslands tveimur vikum síðar. „Hann var bara búinn að vera í tvo daga í íbúðinni sinni hér heima þegar hann rann til innandyra og slasaði sig. Hann lá á Borgarspítalanum í tæpan mánuð og var síðan fluttur á Landakot þar sem við tók þriggja mánaða vist. Ég heimsótti hann á hverjum degi og kom oft með mat handa honum enda var hann ekki hrifinn af öllu sem var í boði á spítalanum. Oft endaði ég með að sofa í stórum glugga á meðan hann hvíldist í rúminu,“ segir Sylvía.
Hún segir að dvölin á Landakoti hafi haft mjög slæm áhrif á föður sinn sem hafi verið orðinn afar þunglyndur. „Hann talaði um Landakot sem „Endastöðina. Hann vildi fara aftur út til Bandaríkjanna og þegar það var ákveðið þá lifnaði yfir honum aftur,“ segir Sylvía.
Magnús hóf endurhæfingu á St. Charles spítala ytra, þar sem framfarirnar voru miklar ljóst var að hann þyrfti hjálpa heima fyrir. Að endingu naut hann aðstoðar vina sinna og nágranna, Ted og Patrick, sem útveguðu honum úkraínska aðstoðarkonu, Víru, sem Magnús réð að lokum til starfa og úr varð að Víra flutti inn á heimilið í ágúst 2018.
Rauð flögg varðandi „Vírusinn“
„Eftir það sem hefur gengið á þá kalla ég hana Vírusinn. Hún sagðist vera ein og umkomulaus og var meira að segja ólöglegur innflytjandi í Bandaríkjunum. Maður sér núna að það voru ýmis rauð flögg en pabbi einfaldlega treysti vinum sínum sem að vildu að hann myndi ráða þessa konu,“ segir Sylvía.
Fjölskyldan var ánægð með að heyra af því að Magnús væri búinn að fá aðstoð en fljótlega fór að síga á ógæfuhliðina. „Eitt af því sem lýsti veikindum pabba var að hann átti skyndilega erfitt með að nota snjallsímann sinn. Hann gat því ekki hringt í okkur né við beint í hann og því þurftu öll samskipti að fara í gegnum Víru. Við áttuðum okkur ekki strax á því á sínum tíma en það fór að verða erfitt að ná í hann. Hann var alltaf sofandi eða einhvern veginn stóð illa á. Í baksýnisspeglinum blasir nú við að mínu mati að Víra var smátt og smátt að loka á okkur.“
Vinafólk Magnúsar heimsótti hann úti og höfðu þau samband við Sylvíu. „Þeim fannst eitthvað undarlegt vera á seyði. Allt væri einhvern veginn breytt og þeim leist ekki á blikuna.“
Þá fór fyrrverandi maðurinn hennar út ásamt yngsta syni þeirra og heimsótti Magnús í desember. „Þar viðurkenndi Víra meðal annars fyrir honum að vera gift og eiga hús í Úkraínu. Hún hafði sagt annað við pabba,“ segir Sylvía. Faðir hennar var ósáttur við þennan tvískinnungshátt en vildi þó ekki gera neitt í málinu.
Tilkynnt um alvarlegt heilablóðfall
Sylvía heimsótti svo föður sinn í febrúar, rúmum tveimur mánuðum fyrir andlátið, ásamt næstyngsta syni sínum. „Við áttum yndislegar stundir þar en mér fannst ástandið á pabba ekki gott og að hann væri ekki að fá þá umönnun sem hann þarfnaðist. Ég reyndi að fá hann til þess að kaupa sér frekar þjónustu frá menntuðum heilbrigðisstarfsmanni en hann vildi það ekki. Hann treysti nágrönnum sínum og Víru,“ segir Sylvía.
Tveimur mánuðum síðar, þann 23. apríl, fengu þau skilaboð um að Magnús hefði fengið annað heilablóðfall og í þetta skiptið væri ástandið alvarlegt. Sylvía flaug í hvelli út til New York ásamt systur sinni og frænku.
Þegar út var komið var ljóst að Magnús skammt eftir. „Við fórum fjórar upp á spítalann, við þrjár og Víra, og áttum þar mjög erfiða stund. Þar var hafin líknandi meðferð og við náðum að spjalla aðeins við hann og knúsa hann þennan dag sem var okkur mjög dýrmætt,“ segir Sylvía.
Daginn eftir vaknaði Sylvía um klukkan fjögur um morguninn. „Ég var eitthvað óróleg en þegar ég leit út og horfði á fallega rauða sólarupprásina þá var ég alveg viss um að pabbi myndi velja þennan dag til að kveðja okkur.“ Og það raungerðist. Magnús lést þennan sama dag, 25. apríl 2019.
Hegðun Víru fór að breytast
Sylvía segir að einkennilegir hlutir hafi þá farið að gerast og ekki síst hafi hegðun Víru breyst snarlega.
„Í fyrsta lagi var hún ítrekað að tala um að hann vildi ekki vera krufinn, að hann vildi alls ekki láta skera sig, maðurinn sem var þaulvanur að leggjast undir hnífinn í aðgerðum. Aftur var það eitthvað sem maður spáði ekki mikið í á meðan þessu stóð en er afar óþægilegt núna. En það sem sló mig mest var að hún fór að hegða sér eins og húsbóndinn á heimilinu. Kvöldið eftir sat ég sjónvarpsherberginu og þá kemur hún fram og skammar mig með þjósti um að á þessu heimili sé ekki talað í síma svo seint að kvöldi og það eigi að vera þögn þar til kl. 6 morguninn eftir,“ segir Sylvía.
Hún segir þessi orðaskipti hafa sannfært hana um að eitthvað undarlegt væri á seyði. „Ég gekk þá fram í eldhús þar sem að systir mín og frænka sátu og sagði þeim að Víra væri búin að erfa húsið. Það var eina skýringin á því að hún væri farin að hegða sér svona eftir að við höfðum ekki verið neitt nema almennilegheitin við hana og leyft henni að vera með okkur í öllu ferlinu. Við höfðum meðal annars rætt að við þyrftum að sjá til þess að hún fengi einhverja upphæð til þess að koma undir sig fótunum,“ segir Sylvía.
Erfðaskránni breytt 49 dögum eftir fyrstu kynni
Nokkrum klukkustundum síðar kemur nágranni og vinur föður hennar, Patrick, með viðbótarerfðaskrá þar sem í ljós kemur að Magnús hafði arfleitt Víru að öllum sínum eignum í Bandaríkjunum. „Þetta var með ólíkindum. Pabbi minn var að glíma við mikil veikindi og heilabilun. Það sást á dagsetningunni að hann arfleiddi hana að öllu aðeins 49 dögum eftir að hún hóf störf hjá honum,“ segir Sylvía og segir að það blasi við að það myndi enginn gera.
„Sérstaklega ekki pabbi minn. Þeir sem þekktu til hans vita að hann var mjög passasamur upp á sitt fé. Ef að börnunum hans vantaði pening þá var það í formi láns, ekki gjafa,“ segir Sylvía.
Hún segir að í hönd hafi farið afar erfiður og nánast súrrealískur tími. „Við urðum vitni að ógeðslegri græðgi,“ segir Sylvía. Systurnar vissu til að mynda af skartgripaskríni með mörgum verðmætum munum sem faðir þeirra geymdi í sérstöku leynihólfi ásamt ýmsum pappírum. „Við höfðum skoðað þá kvöldið áður en sólarhring síðar, þegar við komum heim eftir að hafa heimsótt útfararstofuna, var allt þetta horfið og Víra á bak og burt,“ segir Sylvía.
Málaferli og einkaspæjari
Munirnir tilheyrðu dánarbúin og því hringdu systurnar á lögregluna og eftir fortölur skilaði Víra loks mununum. „Hún kom nauðug viljug með skartgripina í poka og áður en hún skilaði þeim hreytti hún í okkur að hún ætti þessa muni,“ segir Sylvía.
Umsvifalaust hófu systurnar málaferli ytra. Eins og áður segir var frænka þeirra Kolbrún gerð að skiptastjóri dánarbúsins vestanhafs, samkvæmt erfðaskrá föður þeirra, og réð hún bandarískan lögfræðing til starfa. Að auki réðu systurnar einkaspæjari til þess að afla upplýsinga sem nýst gæti við málareksturinn.
Þá kom ýmislegt óhugnanlegt í ljós. Meðal annars hafði Sylvía innleyst blóðþynningarlyf föður síns í apóteki ytra þegar hún heimsótti hann í febrúar. „Það var mánaðarskammtur og síðar komumst við að því að lyfseðillinn hafði ekki verið innleystur í mars. Hún hætti að gefa honum lyfin sín,“ segir Sylvía.
Fjölskyldunni hafði verið ráðið frá því að láta kryfja Magnús því auk þess að vera rándýrt væri ólíklegt að það myndi nokkru skila nema að hreinlega hefði verið eitrað fyrir honum. Að endingu var lík Magnúsar svo flutt til Íslands og var hann jarðsettur þann 21. júní 2019 í Innri Njarðvík.
Dómsmálið eitt allsherjarklúður
Í nóvember 2019 tók sérstakur erfðadómstól málið fyrir og voru skýrslur meðal annars teknar af Víru og systrunum í Riverhead-dómshúsinu á Long Island.
„Víra laug öllu í þeirri skýrslutöku og gerði það mjög sannfærandi. Hún teiknaði upp þá mynd að faðir minn hafi orðið ástfanginn af sér og að hann hafi verið einn og afskiptur. Það sem var sárast var að lögfræðingurinn, sem sá um að gera viðbótina við erfðaskránna, laug einnig. Hann hafði áður sagt að Víra hefði komið á sinn fund með pabba en eiðsvarinn sagði hann að pabbi hefði komið einn inn og Víra beðið frammi á meðan,“ segir Sylvía en það stangaðist við það sem hann hafði áður sagt við fjölskylduna. Um var að ræða orð á móti orði sem ekki var hægt að sanna.
Hún segir að dómsmálið hafi verið eitt allsherjar klúður og sérstaklega hafi bandaríski lögmaður þeirra ytra verið algjör fúskari. Eftirnafn hennar var Fusco og miðað við lýsingar Sylvíu bar hún sannarlega nafn með rentu. „. Hún klúðraði málinu fyrir okkur. Málatilbúnaður hennar var afleitur, hún virtist vera hrædd við lögfræðinga Víru en það sem var alvarlegast var að hún missti af fresti til að óska eftir því að kviðdómur yrði kallaður til, sem hefði skipt sköpum. Kviðdómur hefði átt erfitt með að horfa fram hjá þeirri staðreynd að einhver arfleiði einhvern af öllum sínum eignum eftir 49 daga kynni en dómarinn horfði bara á ísköld gögnin.“
Í vitnisburðinum, sem blaðamaður hefur lesið spjaldanna á milli, má sjá að lögmaður Víru teiknar upp þá mynd að Magnús hafi verið afskiptur af fjölskyldu sinni sem útskýri erfðaskrábreytinguna. Hann hafi viljað giftast henni, þrátt fyrir rúmlega þriggja áratuga aldursmun. „Þetta fullyrti Víra ítrekað sem og nágrannar hans sem ég tel að hafi unnið með henni. Pabbi minntist aldrei á neitt hjónaband við okkur,“ segir Sylvía.
Þá hafi Fusco, lögmaður fjölskyldunnar, ekki náð að sanna að Magnús glímdi við heilabilun sem skipti miklu máli. „Það hefði þurft að kalla eftir öllum gögnum frá Íslandi og láta þýða þau en þess í stað barst aðeins bréf frá Landakoti sem að sannaði ekki neitt,“ segir Sylvía.
Ráðlagt að semja
Covid-heimsfaraldurinn mikil áhrif á málið sem gerði það verkum að það dróst fram úr hófi. Að endingu var systrunum ráðlagt að ganga til samninga og var það niðurstaðan. „Það var mjög erfitt að kyngja því. Lögmaðurinn okkar ráðlagði okkur það og viðurkenndi að staðan væri öðruvísi ef að kviðdómur hefði dæmt í málinu. Hún fær bróðurpartinn af eignum föður míns ytra og en greiðir okkur eitthvað brotabrot,“ segir Sylvía og málið er henni augljóslega afar þungbært.
Að hennar sögn átti ein versta upplifunin sér stað í lok árs 2021, um tveimur og hálfu ári eftir andlát Magnúsar, þegar að loks var opnað fyrir ferðalög til Bandaríkjanna. Þá hittust aðilar við geymsluskemmu sem leigð hafi verið undir muni dúnarbúsins þar sem ætlunin var að systurnar fengju ýmsa persónulega muni föður þeirra. Þar þurfti Sylvía að horfast í augu við Víru og lögmann hennar. „Ég hef aldrei upplifað aðra eins hrægamma, þau grömsuðu í öllu sem pabbi hafði sankað að sér í gegnum ævina og Víra var með blað þar sem hún var búin að kortleggja alla hans muni. Þegar systir mín spyr svo út í þá muni sem höfðu tilfinningalegt gildi fyrir okkur þá öskraði lögfræðingur hennar á okkur hvað við værum gráðugar,“ segir Sylvía.
Á þessum tímapunkti segir hún að henni hafi verið allri lokið og einfaldlega tryllst úr reiði við að fylgjast með þessu ókunnuga fólki tæta í sig þær veraldlegu eigur sem faðir hennar hafði sankað að sér á lífsleiðinni. „Þetta var ógeðslega upplifun. Að endingu steig nýr lögfræðingur okkar inn í og sagði að það væri best að ég myndi bregða mér frá,“ segir Sylvía.
Hún segir að málið hafi tekið gríðarlega á. „Ég er sannfærð um að faðir minn væri á lífi ef Víra hefði ekki komið inn í líf hans. Þá var hræðileg tilfinning upplifa slíkt óréttlæti og geta ekki varið sig,“ segir hún.
Hlustaði ekki á óskir erfingja
Eins og áður segir voru verðmætustu eignir Magnúsar í Bandaríkjunum og náði erfðaskráin aðeins til þeirra. Hér á Íslandi átti Magnús hins vegar einnig þrjár fasteignir, meðal annars í gegnum fyrirtækið M. Magnússon ehf. Atvinnuhúsnæði í Reykjanesbæ, íbúð á Laugarnesvegi og hús í Hveragerði.
Í kjölfar andlátsins varð Kolbrún umboðsmaður í einkaskiptum búsins á Íslandi og sinnti ýmsum verkefnum sem urðu að vera í samráði við erfingja. Hún hegðaði sér hins vegar eins og skiptastjóri búsins, að sögn Sylvíu, og framkvæmdi ýmsa gjörninga án samráðs við ættingja.
Hún sá meðal annars um að koma eignum í verð og eitt slíkt verkefni var að selja atvinnuhúsnæði í Reykjanesbæ. Eignin var ekki auglýst, eins og systurnar vildu, og gekk Kolbrún loks til samninga við aðila sem hún þekkti en sá greiddi 21 milljón króna fyrir húsið. Tæpu ári síðar var eignin svo seld á 30 milljónir króna.
Þá voru systurnar afar óánægðar með upphæð reikninga sem Kolbrún greiddi sér út úr dánarbúinu og töldu þá allt of háa. Tímaskýrslur voru óljósar og upplýsingagjöf áfátt og þá rukkaði Kolbrún, eins og áður segir, íslenska dánarbúið fyrir ýmis verkefni sem unnin voru fyrir bandaríska dánarbúið en halda átti þeim aðskildum. Einnig blönduðust saman útgjöld dánarbúsins og persónuleg útgjöld Kolbrúnar. Meðal annars lét Kolbrún íslenska dánarbúið borga fyrir flugmiða dóttur sinnar til New York.
„Það var einfaldlega mikil óreiða og við glötuðum öllu trausti til hennar. Meðal annars greiddi hún ekki erfðaskattinn eins og henni bar með nægar eignir í búinu,“ segir Sylvía en að endingu settu systurnar Kolbrúnu af og fengu sér nýjan lögfræðing til að sinna sínum málum.
„Stuttu eftir það greiddi hún sér samt rúmar fjórar milljónir króna út úr dánarbúinu án þess að hafa nokkra heimild til þess.“
Í nóvember 2021 var kærðu systurnar frænku sína til úrskurðarnefndar lögmanna., Niðurstaðan varð sú, eins og áður segir, að Kolbrúnu var gert að endurgreiða tæpar þrjár milljónir króna og var gert að sæta áminningu fyrir störf sín.
Slagurinn ekki búinn
Í tæpt ár hefur verið kyrrð yfir vígstöðvum beggja vegna hafsins en fljótlega mun vopnaglamur hefjast að nýju. En eigi eftir að gera ýmislegt upp varðandi dánarbú Magnúsar á Íslandi og þá er til skoðunar hvort að hægt sé að leita frekari leiða til að fullnægja réttlætinu vestanhafs.
„Það er búið að selja hús pabba úti í Bandaríkjunum og við áttum að fá greiddan okkar hlut í maí. Það hefur ekki gerst og mögulega þurfum við að leita réttar okkar vegna þess og vonandi er hægt að fara fram á einhverskonar endurupptöku málsins í heild sinni,“ segir Sylvía.
Hún segist harma að málið hafi ekki verið rannsakað ytra sem sakamál enda sé hún sannfærð um að faðir hennar hafi lent í samsæri fólks sem að hafi litið á hann sem heppilegt skotmark vegna veikinda sinna. „Hinir meintu vinir hans og nágrannar fundu Víru fyrir hann og þau stóðu saman í gegnum allt málið. Ég er viss um að þau drápu hann. Víra kom þarna inn eins og svört ekkja og mér skilst að hún sé farin að sjá um annan öldung í Bandaríkjunum. Mér finnst það skelfileg tilhugsun.“