Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur karlmanni á Suðurlandi fyrir að hafa nauðgað konu, bæði á meðan hún var sofandi og svo haldið áfram eftir að hún vaknaði.
Í ákæru er því lýst að maðurinn hafi fyrst stingið fingri í leggöng konunnar á meðan hún svaf. Hún hafi við það vaknað og tilkynnt honum að hún vildi þetta ekki og því næst sofnað á ný. Maðurinn hafi þá haft við hana samræmi á meðan hún svaf, en konan gat þá ekki spornað við verknaðinum sökum svefndrunga. Hún hafi svo vaknað og ákærði tók eftir því en hélt engu að síður áfram að nauðga henni og beitti hana ofbeldi og ólögmætri nauðung með því að halda henni fastri. Hann lét ekki af háttseminni jafnvel þó konan hafi látið hann skýrt vita að hún vildi þetta ekki, grátið og reynt að losa sig.
Þessi háttsemi er í ákærðu heimfærð undir tvær málsgreinar þess ákvæðis í almennum hegningarlögum er fjallar um nauðgun. Annars vegar fyrir að hafa nýtt sér það að konan gat ekki spornað við verknaðinum á meðan hún svaf og síðan fyrir að hafa ekki látið að háttseminni eftir að konan vaknaði og grátbað hann um að hætta.
Konan fer fram á 3 milljónir í miskabætur. Málið verður rekið fyrir Héraðsdómi Suðurlands, en ákæra var gefin út í júní.