Bankinn vill ekki skýra frá hver heildarupphæðin er en TV2 hefur skjöl, sem var lekið til miðilsins, undir höndum sem sýna að upphæðin er 20 milljarðar.
Málum 155.000 viðskiptavina hafði áður verið lokað en þeir höfðu ekki endilega fengið tilkynningu um það. Nú bætast 90.000 mál við.
Ástæðan fyrir niðurfellingunni er að árum saman innheimti bankinn of háar greiðslur hjá viðskiptavinunum af lánum sem þeir höfðu tekið hjá bankanum. Innan bankans var vitað af þessu en samt sem áður var þessari innheimtu haldið áfram. Það var ekki fyrr en fyrir tveimur árum að málið fór að skekja bankann en þá komust TV2 og Berlingske á snoðir um það og skýrðu frá því. Kom þá fram að þessi ólöglega innheimta hafði staðið yfir áratugum saman.
Carsten Egeriis, bankastjóri, sagði í fréttatilkynningu í gær að bankinn harmi þau mistök sem áttu sér stað í innheimtukerfum hans og þær afleiðingar sem þetta hafði fyrir viðskiptavini.
Erfitt er að segja til um hversu mikið fé bankinn innheimti á ólöglegan hátt en í skýrslu, sem var unnin af lögmannsstofu, kom fram að bankinn hafi fengið 11 milljarða með þessari ólöglegu innheimtu.