Það er orkukreppa í Evrópu og það verður að gera eitthvað í málinu sagði Fatih Birol, forstjóri hjá Alþjóða orkumálastofnuninni, í samtali við BBC. „Ef við getum ekki dregið mjög úr orkunotkun þá get ég ekki útilokað að það verði að grípa til harðrar skömmtunar í vetur,“ sagði hann einnig.
Í mörgum Evrópuríkjum hefur nú þegar verið gripið til aðgerða til að spara orku og í öðrum ríkjum eru slíkar aðgerðir á teikniborðinu og verið að innleiða þær.
Í Frakklandi hefur Agnés Pannier-Runacher, orkumálaráðherra, kynnt aðgerðir sem eiga að draga úr orkusóun. Önnur þeirra er að verslunareigendur eiga að hafa útidyrnar lokaðar ef þeir láta loftkælinguna vera í gangi. Hin er að bannað verður að hafa kveikt á auglýsingaskiltum að næturlagi.
Á Spáni er unnið að undirbúningi aðgerða. Pedro Sanchez, tilkynnti um yfirvofandi aðgerðir á fréttamannafundi nýlega. Hann birtist þar bindislaus og það var ekki að ástæðulausu því hann sagðist hafa beðið alla ráðherra sína, alla opinbera starfsmenn og muni líka biðja starfsmenn í einkageiranum um að nota ekki bindi þegar það er ekki nauðsynlegt. Með því sé hægt að spara því þá sé hægt að draga úr notkun á loftkælingu. Verslanir verða einnig beðnar um að hafa dyrnar lokaðar þegar kveikt er á loftkælingu þeirra að sögn BBC.
Í Þýskalandi er nú þegar byrjað að skrúfa fyrir vatnið í gosbrunnum, lýsingu á opinberum byggingum og heita vatnið í opinberum byggingum. Í byrjun júlí ákváðu þýsk stjórnvöld að endurræsa allt að 10 kolaorkuver en áður hafði verið ákveðið að loka þeim vegna umhverfisverndarsjónarmiða.
Grikkir eru mjög háðir rússnesku gasi. Í júní tilkynnti ríkisstjórn landsins um áætlun til að draga úr orkunotkun. Meðal annars verður milljörðum evra varið í endurbætur á opinberum byggingum til að draga úr orkunotkun þeirra. Markmiðið er að draga úr orkunotkun um 10% á þessu ári og að hún verði 30% minni 2030 en hún er nú. Þá hafa stjórnvöld lagt bann við að loftkælingar kæli niður undir 27 gráður í sumar.
Í apríl hvöttu írsk stjórnvöld landsmenn til að draga úr orkunotkun sinni. Fjölda stuðningsaðgerða var hleypt af stokkunum til að hvetja til minni orkunotkunar. Meðal annars var byrjað að bjóða upp á styrki til húsaeinangrunar. Einnig var tilkynnt að áætlunum um að 80% orkunotkunar landsins komi frá endurnýjanlegum orkugjöfum verði flýtt og eigi að nást í síðasta lagi 2030.