Svona hefst grein eftir Ole Anton Bieltvedt, samfélagsrýni og dýraverndunarsinna, í Fréttablaðinu í dag. Fyrirsögn greinarinnar er: „Má ræða viðkvæm mál eða eiga þau að liggja í þagnargildi?“
Umfjöllunarefni greinarinnar er grein sem hann skrifaði í Fréttablaðið í síðustu viku þar sem hann sagði að honum finnist „gleði“ hinsegin fólks stundum yfirkeyrð og að hann líti á hinsegin fólk og transfólk nákvæmlega eins og alla aðra samfélagshópa, eins og okkur hin segir hann..
Hann segir að greinin hafi greinilega farið fyrir brjóstið á fólki því hann hafi fengið skömm í hattinn fyrir hana og hafi verið sakaður um að grafa undan réttindabaráttu hinsegin fólks og að hafa ráðist á það. „Sérstaklega var ég gagnrýndur fyrir að skilja ekki vilja hinsegin fólks og transfólks til að vera „sýnileg“. Hér bera að skilja „sýnilegur“ sem greinilegur, áberandi,” segir hann.
„Góð og gegn kona skrifaði mér, þegar ég sagði, að erfitt væri að rökræða við fólk, sem stjórnaðist af tilfinningum eða samúð: „Ómögulegt að rökræða við þig um þá tilfinningu þína að hinsegin fólk sé of sýnilegt.“ Hún taldi það, sem sagt, mikilvægt fyrir hinsegin fólk að vera „sýnilegt“,“ segir Ole sem segist hafa svarað henni á eftirfarandi hátt:
„Þessu svaraði ég þannig, að, ef ég væri ráðgjafi hinsegin fólks, myndi ég ráðleggja þeim þetta: Forðist, að vera of sýnileg, láta of mikið á ykkur bera og berjið bumbur ykkar hóflega. Því, með slíku eruð þið sjálf að skera ykkur úr, gera ykkur að sérstökum hópi. Leggið heldur áherzlu á, að ganga inn í samfélagið og sameinast því, með hljóðlegum og mjúkum hætti, renna inn í það án hávaða og láta, en standið þó fast á rétti ykkar, ef/þegar á hann reynir.“
Hann segir síðan að önnur kona hafi sagt að hún skilji ekki nálgun hans, hvert hann sé að fara með skrifum sínum. „Svarið er, að ég tel hinsegin fólk bara venjulegt fólk, og sé enga ástæðu til að vera að hampa því sérstaklega. Nær hefði t.a.m. verið fyrir Reykjavíkurborg að byggja fleiri rampa fyrir hjólastólafólk, en að mála götur og stræti hinsegin fólki til heiðurs. Þegar samfélagið er skoðað, má greina marga hópa, sem allir hafa sín sérkenni, vegna sinna erfðamengja og gena, en eiga samt fullan rétt á að falla inn í samfélagið og vera fullgildir samfélagsþegnar: Það er ekkert réttlæti í því, að taka þarna einn hóp út úr og hampa honum sérstaklega af opinberum aðilum, sveitarstjórnum, skólum, kirkjum, fyrirtækjum o.s.frv. Sérstaklega finnst mér réttur opinberra aðila til þessa orka tvímælis,“ segir hann.
Í niðurlagi greinarinnar segir hann að tilgangur hans með skrifunum sé eftirfarandi: „1. Að sýna fram á, að hinsegin fólk og transfólk er eins og við hin. 2. Það verður að gilda jafnvægi og jafnrétti milli allra hópa. 3. Hinsegin fólk er ekki að styrkja sína stöðu með því að vilja vera „sýnilegt“. 4. Kynferðislegir tilburðir hinsegin fólks í gleðigöngum og öðru eiga ekki við. 5. Kynferðismál ættu að vera einkamál manna.”
Hann hvetur fólk til að láta ekki tilfinningasemi eða ógrundaða samúð stýra sér og vonast til að fólk geti metið skrif hans af skynsemi og yfirvegun þess í stað.