Í nýlegu viðtali við CNN sagði hún að Trump sé nú undir miklu álagi: „Ég held að hann sé taugaóstyrkur. Ég held ekki að hann geti annað. Ég meina, það eru sex-sjö-átta mismunandi rannsóknir í gangi sem tengjast honum. Nú hefur fólk farið inn í húsið hans og tekið sönnunargögn með sér.“
Þar á hún við húsleit alríkislögreglunnar FBI heima hjá Trump í Mar-a-Lago í Flórída nýlega.
Í kjölfar húsleitarinnar hefur Trump margoft skipt um skoðun ef marka má ummæli hans. Til dæmis krafðist hann þess að húsleitarheimildin yrði gerð opinber en þegar búið var að opinbera hana var hann ekki sáttur við það. Þetta segir Grisham vera merki um að hann sé taugaóstyrkur. „Það er ólíkt honum að skipta svona oft um skoðun. Hann er miklu betri í almannatengslum en þetta. Ég veit að þetta hljómar heimskulega en þegar hann hellir sér út í eitthvað, óháð því hversu sjúkt eða rangt það er, þá kemst hann upp með það,“ sagði hún.
„Að þessu sinni skiptir hann sífellt um skoðun. Allt frá: „Þeir áttu ekki að fara inn,“ yfir í „Ég átti ekki möguleika,“ og að lokum „Gerið allt opinbert“. Nú er það svo ekki nóg fyrir hann. Ég held að sú staðreynd að hann heldur áfram að breyta þeim skilaboðum sem hann sendir frá sér komi upp um hann. Venjulega er það þannig að þegar hann tekur afstöðu þá heldur hann sig við hana, jafnvel þótt hún sé röng,“ sagði hún einnig.