Konan segir að hún hafi gert þetta í mótmælaskyni við innrásina í Úkraínu. Rússneska fréttastofan Baza er meðal þeirra sem skýra frá þessu.
Konan er sögð hafa sagt lögreglunni að hún hafi með þessu gripið til eigin „sérstöku aðgerðar“ og vísar þar til orða rússneskra valdhafa að innrásin í Úkraínu sé ekki innrás heldur „sérstök hernaðaraðgerð“.
Bíllinn, sem konan kveikti í, er lúxusbíll af gerðinni BMW X6 í eigu Yevgeny Sektarve sem er næstæðsti yfirmaður rússneska herráðsins.
Konan er sögð hafa hlaupið að bílnum, sem var lagt á bílastæði, og hellt bensíni yfir farangursrými hans og síðan borið eld að. Á samfélagsmiðlinum Telegram er fjöldi myndbanda þar sem bíllinn sést í ljósum logum.
Í kjölfar íkveikjunnar fóru rússneskir fjölmiðlar að fjalla um andlegt ástand konunnar. Rússneski miðillinn Lenta skrifaði á Twitter að áður en konan kveikti í bílnum hafi henni verið „rænt“ og hún „dáleidd af úkraínskum sérsveitarmönnum“. Eru þeir sagðir hafa heilaþvegið hana og kennt henni að „kveikja í bílum“.