Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradís, segir að athafnamaðurinn Björn Steinbekk hafi haft fé af sér og bróður sínum, Árna Sveinssyni, þegar þremenningarnir stofnuðu framleiðslufyrirtæki í kringum aldamótin. Fyrirtækið hafi ekki framleitt neitt en Björn hafi straujað kort fyrirtækisins fyrir persónulegri neyslu sinni og skilið þau systkinin eftir í skuldasúpu. Hrönn greinir frá þessu í færslu á síðunni Steinbekk.is, sem stofnuð er til höfuðs Birni, en hún staðfesti frásögnina í samtali við DV og veitti góðfúslegt leyfi fyrir birtingunni.
Hún segir að tilefni færslunnar sé viðtal við Björn á Rás 2 þar sem hann ræddi fjölmiðlastorm sem geisað hefur í kringum hann undanfarna daga. Sá stormur hófst í hlaðvarpsþættinum Þungaviktinni þar sem einn þáttastjórnandinn, Kristján Óli Sigurðsson, fór ófögrum orðum um Björn og kallaði hann meðal annars miðaræningja. Vísaði hann þar í landsfrægt brask með miða á leik Íslands og Frakklands á Evrópumótinu í knattspyrnu árið 2016 sem Björn stóð fyrir. Allt fór í handaskol ytra hjá Birni og tugir Íslendinga sátu uppi með sárt ennið.
Í stuttu máli krafði Björn Kristján Óla um afsökunarbeiðni í persónu en þáttastjórnandinn neitaði því og þess í stað var lesin upp afsökunarbeiðni í næsta þætti. Björn taldi það ekki nægja og fór að herja á styrktaraðila þáttarins um að hætta að auglýsa á þessum vettvangi og hafði það í gegn að Coca Cola á Íslandi ákvað að slaufa samstarfinu. Í kjölfarið sendi Björn inn aðsenda grein á Vísi.is þar sem hann fór hörðum orðum um fjölmiðlafyrirtækið Sýn, sem hýsir þáttinn, og Nóa Siríus, einn af styrktaraðilum Þungaviktarinnar um að bregðast ekki við orðræðunni í þættinum. Þá fór Björn í áðurnefnt viðtal á Rás 2 þar sem hann bar sig aumlega.
Ljóst er að fjölmörgum fyrrum viðskiptafélögum Björns er verulega misboðið vegna aðgerða hans. Þar á meðal er Kristján Atli Dýrfjörð sem segist hafa tapað 5,2 milljónum króna á viðskiptum sínum við Björn í tengslum við landsleikinn árið 2016. Hann hafi aldrei fengið persónulega afsökunarbeiðni frá Birni sem athafnamaðurinn krefur aðra um. Hann stofnaði svo áðurnefnda síðu, Steinbekk.is, til höfuðs Birni þar sem að sögur eru farnar að berast inn auk yfirlits um þau fyrirtæki sem Björn hefur komið að og endaði í gjaldþroti.
Ein þeirra sem fékk algjörlega upp í kok var Hrönn, eins og áður segir, og hún sendi inn sögu af viðskiptum sínum.
„Þegar ég og bróðir minn Árni Sveinsson vorum að byrja í kvikmyndabransanum og vorum ansi blaut bakvið eyrun, þá fékk Björn okkur til að stofna með sér fyrirtæki, OK Productions, sem hann bar enga löglega ábyrgð – enda hafði hann verið dæmdur fyrir misferli og fíkniefnasmygl og var ekki með kredit neinsstaðar. Og við hefðum betur átt að hlusta á þá sem vöruðu okkur við Birni en hann var góður sölumaður og sannfærði okkur að við værum að fara að framleiða allskonar verkefni. Til þess stofnuðum við vorið ‘99 debetkortareikning og kredikort sem Árni var prókúruhafi á, en kortið var í vörslu Bjössa,“ skrifar Hrönn.
Hún segir að að verkefnin hafi látið á sér standa en að Björn hafi boðið þeim systkinum af og til út að borða og hafi alltaf verið vel til fara eins og sannur athafnamaður.
„En um haustið 1999 fórum við að fá tilkynningar frá bankanum um það að yfirdrátturinn á reikningum væri kominn yfir eina og hálfa milljón og kortið sömuleiðis og við supum hveljur, enda ekkert framleitt og ekkert sem átti að vera á þessum reikningum. En Bjössi hafði passað að skrá fyrirtækið á sitt heimilisfang svo við fengum aldrei yfirlitin send,“ skrifar Hrönn.
Að hennar sögn hafi Björn eytt rúmum 3 milljónum króna í föt, hótel, veitingastaði, áfengi og kókaín á þessum stutta tíma.
„Peningana millifærði hann af reikningum eða tók út í hraðbönkum, hann notaði líka kortin allsstaðar þó nafn bróður míns væri á þeim. Svo fréttum við frá bankanum að hann hefði verið í reglulegum samskiptum við þá um að hækka heimildir og yfirdráttinn, því við værum svo mikið að framleiða! Við létum snarlega loka öllum reikningum. En Björn lét ekki þar við sitja. Þegar ég fékk svo persónulega vísa yfirlitið mitt í mánuðinum á eftir, þá kom í ljós að Björn hafði tekið út bílaleigubíl í 40 daga, og flug og hótel til Moskvu í eitthvað kókaínferðalag með vini sínum. Þetta gerði hann þegar við höfðum lokað hinum reikningunum, eða bankinn stoppað hann, en kortanúmerið mitt hafði hann haldið uppá síðan ég hafði látið hann hafa það til að panta pizzu einhverntíman löngu fyrr – en svo laug hann að söluaðilunum að við værum sambýlisfólk,“ skrifar Hrönn.
Hún og Árni bróðir hennar, rétt rúmlega tvítug, hafi verið fjárhagslega eyðilögð eftir verkefnið.
„Bankinn bakfærði hluta af því sem hann hafði tekið á persónulega kortið mitt, en eftir stóðu tæpar fjórar mkr sem tikkuðu á himinháum dráttarvöxtum. Mamma og pabbi borguðu inná þetta meiripartinn en ég gerði samning fyrir restinni við lögfræðinga bankans og borgaði þetta niður á tveimur árum. Í stað þess að fara í háskóla erlendis eins og okkur dreymdi um, fórum við í útgerð að framleiða efni fyrir Skjáeinn og borguðum mánaðarlega inn á skuldina hans Bjössa. Hann fór í meðferð við kókaínfíkn og fékk friðhelgi meðan „hann væri að vinna í sínum málum” en hann hvorki borgaði nokkuð einsog hann lofaði í fyrstu né bað hann okkur afsökunar.“ skrifar Hrönn.
Í samtali við DV segir hún að það hafi verið óþolandi í gegnum árin að sjá Björn reglulega að barma sér í fjölmiðlum, krefjast samúðar og spila sig sem fórnarlamb. Steininn hafi þó tekið úr þegar hann hafi farið í herferð að krefja aðra um afsökunarbeiðni, eitthvað sem hann hafi aldrei sjálfur gert þrátt fyrir að skilja eftir sig sviðna jörð.
„Í mörg ár þarna í kringum aldamótin þurfti ég að taka út peninga, 100 þúsund krónur, og heimsækja lögfræðistofu í byrjun hvers mánaðar til þess að greiða inn á skuldina mína. Við höfum aldrei heyrt í Birni og þrátt fyrir að hafa oft rekist á hann á förnum vegi þá hefur hann aldrei séð sóma sinn í að biðjast svo mikið sem afsökunar. Hann var fljótlega eftir þetta kominn í flott starf og keyrði um á dýrum bíl en kom aldrei til hugar að greiða inn á þessa skuld sína sem hann varpaði á okkur systkinin,“ segir Hrönn.
Hún segir alveg ljóst að aðgerðir Björns síðustu daga hafi komið illa við marga og hún segist búast við fleiri frásögnum af viðskiptaháttum athafnamannsins. „Hann byrjaði að henda steinum og hann mun fá hnullunga tilbaka,“ segir Hrönn.