Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag og segist hafa heimildir fyrir að skotmaðurinn hafi skotið fyrrum atvinnurekanda sinn. Eiginkona atvinnurekandans hafi verið sloppin út úr húsinu en hafi snúið aftur þegar hún heyrði skothvellinn.
Skotmaðurinn hafi þá beint byssunni að henni og skotið. Lést konan af völdum skotsins. Morgunblaðið segist hafa heimildir fyrir að skotmaðurinn hafi verið með afsagaða haglabyssu.
Fréttablaðið segist hafa heimildir fyrir að sonur hjónanna, sem var gestkomandi á heimilinu ásamt barnsmóður sinni og ungu barni, sé talinn hafa orðið vitni að morðinu á móður sinni. Þegar skotmaðurinn var að hlaða byssuna hafi sonurinn lagt í hann með berum höndum. Hafi þeim átökum lokið með að skotmaðurinn lést.
Syninum var sleppt úr haldi lögreglu á sunnudagskvöldið en hann er enn með stöðu sakbornings í málinu.
Faðir hans liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi og er í lífshættu að sögn lögreglunnar.