Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Eins og fram hefur komið þá gerði Skotfélagið á Blönduósi fyrst athugasemdir við hegðun skotmannsins í nóvember á síðasta ári. Fyrir nokkrum vikum var hann vistaður á geðdeild um hríð. Hann hafði áður hótað manninum sem hann skaut og særði lífshættulega á sunnudaginn. Eiginkona mannsins féll fyrir hendi skotmannsins.
Margrét sagðist ekki styðja að gripið sé til þess að frelsissvipta andlega veikt fólk í forvarnarskyni, stimplun sé fólgin í því. Langflestir, sem hafa greinst með geðrænan vanda, beiti ekki ofbeldi. „En vegna þess að byssur geta valdið svo miklum skaða á svo skömmum tíma þarf að vera erfitt að fá skotvopnaleyfi og þú átt að geta misst leyfið ef grunur kviknar um ofbeldi. Það er ekki mannréttindabrot að fá ekki að eiga byssu,“ sagði hún.