Íbúar á Blönduósi eru að reyna að ná áttum eftir að hafa vaknað upp við þau hræðilegu tíðindi að skotárás hafi átt sér stað í bænum og afleiðingarnar væru þær að tveir væru látnir og einn særður. Um Íslendinga var að ræða sem búsettir eru á Blönduósi en fram hefur komið að árásarmaðurinn er meðal hinna látnu en tengsl voru milli fólksins.
Sjá einnig: Tveir látnir og einn særður eftir skotárás á Blönduósi í nótt
Íbúi í nærliggjandi húsi segir í samtali við DV að bæjarbúar séu að reyna að ná áttum eftir þessi hræðilegu tíðindi. Árásin er sögð hafa átt sér stað milli klukkan fimm og sex í morgun en þrátt fyrir að búa skammt frá segir viðmælandinn að hann hafi orðið einskis var. „Ég varð ekki var við neitt í nótt og veit ekki til þess að nokkur hérna í nærliggjandi húsum hafi orðið var við skothljóð eða neitt því líkt. Maður heyrir bara af þessu þegar maður vaknar,“ segir maðurinn. Tíðindin hafi farið sem eldur um sinu um bæinn og íbúar séu hálfringlaðir. „Ég trúði ekki að svona nokkuð gæti gerst hérna,“ segir viðkomandi.
Upplýsingar um líðan þess særða liggja ekki fyrir en hann var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Þá voru einn eða fleiri handteknir á vettvangi en lögreglan veitir ekki neinar frekari upplýsingar um málið. Von er á tilkynningu síðar í dag.
Lögreglan á Norðurlandi eystra var kölluð til en lögum samkvæmt sér hún um rannsókn morðmála í umdæminu.